Samningsveð

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 11:53:13 (2611)

1996-02-01 11:53:13# 120. lþ. 82.3 fundur 274. mál: #A samningsveð# frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[11:53]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er mikill misskilningur að halda því fram að ákvæði sem tryggir lánastofnanir betur gagnvart útgerðarmönnum, sem hafa viljað ganga á svig við ákvæði í veðsamningum, skapi einhverja skaðabótaskyldu. Alþingi getur í dag og hefði eftir sem áður getað afnumið fiskveiðistjórnunarlögin án þess að nokkur öðlist skaðabætur þar fyrir. Það er algjörlega úr lausu lofti gripið hjá hv. þm. Hann verður að skýra afstöðu sína, mér virðist hún mjög á reiki. Ég skildi hann á þann veg í fyrra þegar um þetta var deilt að hann væri beinlínis á móti því að lánastofnanir tækju veð í samanlögðu verðmæti skips og aflahlutdeildar þess. Mér finnst hann vaða svolítið reyk í þessari umræðu í dag og ég hef ekki alveg áttað mig á því hvaða skoðun hann hefur. Þó þetta ákvæði fari hér út þá geta lánastofnanir eftir sem áður tekið veð í veðmæti skips og aflahlutdeildar. Það var skýrt kveðið á um það í fiskveiðistjórnunarlögunum sem voru samþykkt 1990 og hans flokkur samþykkti þótt hann hafi ekki greitt því atkvæði. En það gerði þáv. stjórnarmeirihluti. Þá var samþykkt að veðsetningar sem kæmu til á aflahlutdeild eftir þann tíma, yrðu að vera ótryggar. Það kerfi gildir enn í dag. Spurningin er aðeins hvort það eigi að tryggja þessa hagsmuni. En hv. þm. verður að svara því hvort hann er á móti því að veðið nái til verðmætis skips og aflahlutdeildar. Ef svo er, ætlar hann þá að flytja tillögu hér í þinginu um að banna að veðið nái til verðmætis aflahlutdeildarinnar? Ef hann gerir það ekki þá meinar hann ósköp lítið með því sem hann er að segja. Svo afstaða hans sé skýr verður hann að svara því hvort hann ætlar að flytja tillögu um að banna að veðið nái til þessa hluta af verðmæti skipsins.