Samningsveð

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 11:55:39 (2612)

1996-02-01 11:55:39# 120. lþ. 82.3 fundur 274. mál: #A samningsveð# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[11:55]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er gamalkunnug aðferð í pólitíkinni að skamma Albani fyrir Kínverja, eins og það er orðað. Ég skil ósköp vel hvað hæstv. sjútvrh. á við. Hann er ekki að kasta fram spurningum til mín. Hann er að kasta fram spurningum til þeirra þingmanna stjórnarflokkanna sem eru mér sammála, sem er Framsfl. Og mér fannst það einnig koma fram í ræðu hv. þm. Sturlu Böðvarssonar áðan að ekki hafði hann nú mörg hlýleg orð að mæla í garð samstarfsmanna sinna úr Framsfl. fyrir afstöðu þeirra til þessara mála. En látum það nú vera. Það sem fyrst og fremst vakir fyrir mér og ég vil að komi skýrt fram er að ég samþykki ekki lagasetningu frá Alþingi sem veitir lánastofnunum sérstaka heimild til að taka veð í aflaheimildum sem þau ekki hafa í dag öðruvísi en með þeim hætti að útvegsmenn gefi skriflega yfirlýsingu um það að þeir muni ekki afsala sér aflaheimildum á meðan viðkomandi lánastofnun hefur veð í slíku. Það er mín skoðun að slík breyting gæti kallað á skaðabótakröfu ef lögum um stjórn fiskveiða yrði breytt og aflaheimildir teknar af þeim skipum sem standa á bak við veðið. Það er mín skoðun að ef slík breyting yrði gerð, sem hæstv. sjútvrh. vildi láta gera, mundi það styrkja viðkomandi lánastofnanir í því að krefjast þess, ef lögunum yrði breytt og skip svipt aflaheimildum, að til skaðabóta kæmi. Ég tel óvarlegt að taka þá áhættu og er því á móti þeirri breytingu, eins og þingmenn Framsfl. Ég hef hins vegar ekkert við það að athuga að ef lánastofnanir vilja taka þá áhættu sem þær hafa þurft að taka fram til þessa dags og hafa ekki tryggari pappíra við að styðjast en yfirlýsingar útgerðarmanna þá sé þeim það ekki bannað.