Samningsveð

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 12:30:49 (2619)

1996-02-01 12:30:49# 120. lþ. 82.3 fundur 274. mál: #A samningsveð# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[12:30]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Við höfum auðvitað ekki aðstöðu til annars en að ræða um þetta mál í ljósi þess ríkjandi ástands um stjórnkerfi fiskveiða, svo getum við verið sammála eða ósammála eftir atvikum um frjálst framsal veiðiheimilda og stjórnkerfið sem slíkt. Við verðum að ræða þetta út frá þeirri stöðu sem málin eru í. Ég held að við eigum ekki heldur horfa fram hjá því að ákveðin skilaboð eru fólgin í því að frv. er lagt fram þannig að það virðist vera að verða ljóst að ekki er meiri hluti fyrir því á Alþingi Íslendinga að gengið sé frá málinu með þessum hætti. Hvers vegna ekki? Ég tel að það sé fyrst og fremst vegna þess að meiri hlutinn á Alþingi Íslendinga vill verja rétt löggjafans til að breyta um fiskveiðistjórnunarkerfi. Menn sjá þetta í samhengi við það að þetta gæti þrengt stöðuna hvað það snertir. Ég tel að svo sé og hæstv. sjútvrh. sé að átta sig á því að það er það sem veldur því að þingmenn, með annars að mörgu leyti mismunandi skoðanir í þessum efnum, sameinast þó í því að þeir vilja ekki að neitt það sé gert sem gæti þrengt stöðuna. Ég vísa til þess sem ég hef hér áður sagt um þá þróun sem þetta væri hluti af og það ferli. Auðvitað hafa margir áhyggjur af því að þrátt fyrir ákvæði 1. gr. sé að myndast ákveðinn hefðarréttur, í gangi sé ákveðið skrið, réttarþróun segja lögfræðingar stundum þegar þeir lenda í hvað mestum vandræðum með að túlka breytta afstöðu til laga og nýja dóma og að slíkir hlutir geti hægt og sígandi verið þarna að verki. Ég lít þess vegna á þetta sem vissan varnarsigur gagnvart þróun og ferli sem ég að öðru leyti hef miklar áhyggjur af.