Samningsveð

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 12:33:08 (2620)

1996-02-01 12:33:08# 120. lþ. 82.3 fundur 274. mál: #A samningsveð# frv., SP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[12:33]

Sólveig Pétursdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er sérstök umræða sem hér fer fram. Allir virðast keppast við að eigna sér heiðurinn af andstöðu í þessu máli og vildu þar allir Lilju kveðið hafa eins og minnst var á hér áðan. En í tilefni orða hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingríms J. Sigfússonar, varðandi vinnu allshn. í þessu máli þá er það rétt að nefndin vann mikið í málinu á síðasta þingi og reyndi að finna málamiðlun. Þá kom fram hugmynd um þessa brtt. sem þingmaðurinn las upp áðan. Síðan var sent bréf til sjútvn. með tillögu sem ég ætla að fá að lesa hér upp, með leyfi forseta:

,,Þegar skip er sett að veði er heimilt að semja í veðbréfi að veðrétturinn nái einnig til aflahlutdeildar skips á hverjum tíma, samanber 1. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða.``

Ég verð að fá að lesa aðeins röksemdir með þessari brtt. sem var send sjútvn. til umsagnar, með leyfi virðulegs forseta:

,,Með tilvísun til þeirrar greinar er verið að undirstrika þá stefnuyfirlýsingu sem fram kemur í niðurlagsákvæði 1. gr. þeirra laga að úthlutun veiðiheimilda samkvæmt þeim lögum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Af þessari tilvísun til 1. gr. laga nr. 38/1990 leiðir að sá sem tekur veðrétt í skipi og aflahlutdeild tekur með sama hætti og eigandi skips þá áhættu að aflahlutdeildin verði vegna ráðstafana ríkisvaldsins skert eða hún jafnvel afnumin á gildistíma veðsamnings.``

Í sambandi við þetta er vitnað í dóm Hæstaréttar frá því í nóvember 1993 í máli Hrannar hf. gegn fjmrh. Ég held því að það sé alveg ljóst hvað hér er sagt og að mínu mati er þetta fyrst og fremst lögfræðilegt atriði sem snýr ekki að því hvaða skoðanir menn hafa á lögum um stjórn fiskveiða. Það var réttaróvissa á þessu sviði. Það er verið að setja hér fram frv. sem á að vera heildarlöggjöf um samningsveð og því teldi ég eðlilegt að þetta ákvæði hefði verið inni.