Samningsveð

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 13:51:50 (2628)

1996-02-01 13:51:50# 120. lþ. 82.3 fundur 274. mál: #A samningsveð# frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[13:51]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég bregst vel við frýjunum hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar þó ég telji röksemdirnar fyrir því að einstakir þingmenn hafi verið nafngreindir í fjölmiðlum séu ekki nægar til þess að menn komi upp vegna fjölmiðla. En hann auglýsir eftir afstöðu einstakra þingmanna, stjórnarsinna m.a., hvers vegna þetta umdeilda ákvæði sé ekki inni.

Skoðun mín er augljós en ég vil þó taka mjög skýrt fram að þingflokkur Framsfl. er nokkuð samstiga í málinu eins og það var lagt fram og er vert að vekja athygli á því að hér er um mjög þarft frv. að ræða eins og það liggur fyrir núna. Eins og hv. þm. vék að er margt í gildandi lögum afskaplega úrelt og hefur ekki fylgt breyttum viðskiptaháttum. Ástæður þess að menn hafa lagst gegn veðheimildum á aflaheimildir eru auðvitað ýmsar eins og hv. þm. rakti áðan en ég nefni þau grunnsjónarmið sem ég sjálfur legg til grundvallar. Það er í fyrsta lagi að auðlindin er sameign þjóðarinnar og um er að ræða afnotarétt af þessari auðlind. Með veðsetningu á lögbundnum aflaheimildum tel ég að sé verið að stíga fyrsta skref í ávísun á eign útgerða eða einstaklinga að þessari auðlind.

Ef við hugsum til framtíðar að innan 10--15 ára kunni menn að benda á að þeir hafi á grundvelli lagastoðar haft veðsetningu í aflaheimildum og vilji nú stíga næsta skref sem sé að eignast kvótann. Á því grundvallaratriði byggist afstaða mín. Jafnframt má hafa í huga að verði breytingar á fiskveiðistjórnun sem kann alltaf að gerast og öll kerfi breytast þá hygg ég að lagastoð fyrir veðheimildum kunni að hindra að slíkar breytingar geti orðið á stað þar sem slíkir hagsmunir eru í húfi. Ég tel þó mikilvægt að jafnframt komi fram að núverandi fyrirkomulag getur gengið áfram þar sem bankar og lánastofnanir þurfa að meta áhættu sína.