Samningsveð

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 13:56:45 (2630)

1996-02-01 13:56:45# 120. lþ. 82.3 fundur 274. mál: #A samningsveð# frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[13:56]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Til umræðu er frv. um samningsveð og frv. sem að flestra mati er gott og þarft. Umræðan hefur fyrst og fremst snúist um það sem ekki er í frv. frekar en það sem þar er að finna. Ég held að ég beini máli mínu þá fyrst og fremst að þeim hluta sem hefur verið mönnum hvað hugleiknastur, þ.e. þau ákvæði sem voru upphaflega inni í frumvarpsdrögunum að heimila veðsetningu aflaheimilda skipa.

Þetta frv. kom til stjórnarflokkanna fyrir áramót og með þeim formerkjum að ríkisstjórnin hefði einróma samþykkt framlagningu þess, þar á meðal fimm ráðherrar Framsfl. Það var rætt í þingflokknum á þann veg og margir aðilar sem þar tóku til máls höfðu fyrirvara á samþykki sínu fyrir þessu frv. í þinginu og áskildu sér allan rétt til breytinga eða að vera beinlínis gegn því þegar kæmi að afgreiðslu þess innan þingsins eða í allshn. Ég var einn af þeim sem höfðu fyrirvara á því að samþykkja að aflahlutdeild skipa gæti verið veðsett.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að óbein veðsetning aflahlutdeildar hefur viðgengist um margra ára bil. Það hefur jafnframt viðgengist að færa kvóta sem eign útgerðarfyrirtækja um langan tíma. Þessi háttur á færslu eignarréttarins byrjaði með tilkomu svokallaðra sjóða, Atvinnuleysistryggingasjóðs og Hlutafjársjóðs, sem stofnaðir voru að tilhlutan ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar 1988. Ástæðan fyrir breytingunni var sú að ýmis fyrirtæki sem sóttu um fjármuni í Hlutafjársjóð voru það illa stödd að eiginfjárstaða þeirra var undir núllinu þannig að þau höfðu ekki samkvæmt reglum sjóðsins leyfi fyrir úthlutun og þar með voru góð ráð dýr. Það var síðan stjórn sjóðsins, væntanlega með samþykki ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar og þeirra flokka sem stóðu að henni, að stjórnin samþykkti að óveiddar aflaheimildir mætti nota til að lyfta upp eiginfjárstöðunni og þar með gera þá gjaldgenga í Hlutafjársjóði. Þar með var farið að færa þessar óveiddu aflaheimildir sem eign í efnahagsreikningum sumra fyrirtækja og þá fór hjólið að snúast.

[14:00]

Hvað þýddi það þegar farið var að færa þetta sem eign hjá fyrirtækjum? Það þýddi náttúrlega um leið að með sölu fyrirtækjanna fluttist eignin milli fyrirtækja og ef einhver aðstandandi þessa sama fyrirtækis féll frá kom upp dómsmál í Hæstarétti þar sem krafist var þess að sami eignarhlutur í aflahlutdeild gengi í erfðir á milli manna. Það var staðfest í Hæstarétti að þessar aflahlutdeildir gætu gengið í erfðir. Þar með er hringnum lokað.

Þessi þróun hefur farið mjög fyrir brjóstið á þjóðinni og orðið til þess að aflahlutdeildirnar eru komnar í hendur svokallaðra sægreifa sem eiga skipin og eiga úthlutunarréttinn í aflahlutdeildum sem úthlutað er á hverju ári. Staðreyndin er nefnilega sú að lögin um veðsetningu aflahlutdeilda eða við skulum segja sú breyting sem var verið að tala um breytti ekki neinu vegna þess að það er búið að gera þessar breytingar smám saman, ekki beinlínis vegna þess að það hafi verið lögfest heldur af því að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar leyfði á sínum tíma að þessi færsla aflahlutdeilda væri viðurkennd. Þess vegna hefur líka óbein veðsetning verið lengi viðhöfð og viðurkennd sem nægjanlegt veð fyrir skuldum og menn hafa gengist undir það að selja ekki aflahlutdeild nema veðhafar hafi samþykkt það.

Sama á þá við um erfðaréttinn og alla þá þróun sem þar hefur átt sér stað síðan árið 1988. Því held ég að óhætt sé að vísa ábyrgð á þessari þróun á hendur þeim framsóknarmönnum, alþýðubandalagsmönnum og alþýðuflokksmönnum sem þá voru í ríkisstjórn. Ég vil taka það fram að ég hef alla tíð verið mjög mikið á móti því hvernig þetta hefur þróast en að sjálfsögðu hef ég ekki getað haft mikil áhrif á það önnur en þau að reyna að mótmæla því í blaðagreinum og á fundum þar sem tækifæri hefur verið til þess.

Það er nú verr og miður að sennilega verður ekki hægt að snúa við, alla vega er mjög erfitt að snúa við frá þessari þróun. Ákvæðin um veðsetningu koma trúlega inn fyrr eða síðar, hvort sem okkur líkar það betur eða verr.

Það kom mér reyndar dálítið á óvart þegar ríkisstjórnin samþykkti að leggja fram frv. án þess að nokkur ráðherra gerði athugasemd við þá heimild að veðsetja mætti aflahlutdeildir. Það kom mér líka mjög á óvart að þegar þessi samþykkt ríkisstjórnarinnar var komin í gegn og til ríkisstjórnarflokkanna virtist svo fara að sjálfstæðisþingmenn skyldu, við skulum segja, ekki beinlínis átta sig á því að með því að afgreiða þetta með fyrirvara, gefa ráðherrar Framsfl. þingmönnum sínum tækifæri til þess að hafna einstökum atriðum í frv. eins og þeir séu frelsararnir í málinu og þar með hygla sínum eigin þingmönnum vegna þess á kostnað þingmanna Sjálfstfl. Ég verð bara að segja alveg eins og er að þessi vinnubrögð finnast mér alveg hreint með ólíkindum og hreint ekki til þess fallin að skapa traust á milli flokka sem vinna tveir saman. Ég get bara sagt að ábyrgð framsóknrmanna og þeirra sem hér hafa talað eins og alþýðubandalagsmanna og alþýðuflokks manna á því hvernig þessi mál eru komin, er algjör. Þeir bera einir ábyrgð á því hvernig þessi mál hafa þróast og hvernig þessi auðlind, sameign þjóðarinnar, hefur færst frá fólkinu yfir til svokallaðra sægreifa. Þeir bera ábyrgðina og engir aðrir. Þess vegna finnst mér þessi umræða um það hver eigi að hafa komið í veg fyrir eitt og annað í málinu algerlega út í hött.