Samningsveð

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 14:11:52 (2635)

1996-02-01 14:11:52# 120. lþ. 82.3 fundur 274. mál: #A samningsveð# frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[14:11]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Þar sem ég sit í allshn. og mun fá tækifæri þar til að fara gaumgæfilega ofan í saumana á þessu mikilvæga máli ætla ég ekki að fara mörgum orðum um einstök efnisatriði þess nú. Ég vil hins vegar eins og aðrir hafa gert í dag vekja athygli á að aðalumræðan hefur orðið um það ákvæði sem ekki er nú í frv. miðað við það hvernig það var lagt fram áður. Það sýnir vel hitann sem er í þessu máli, enda er hér um að ræða mesta hagsmunamál þjóðarinnar, þ.e. fiskinn í sjónum. Ég ætla að slást í hóp fyrri ræðumanna og að gera þetta atriði að umtalsefni.

Ég vil láta í ljós ánægju mína yfir því að ákvæðið um veðsetningu veiðiheimilda skipa sem var í fyrri gerðum frv. er nú farið úr því. Ég vil eins og fulltrúar Alþfl. og Framsfl. hafa haldið fram og nokkrir fleiri, halda fast við það að 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða sé í gildi, að fiskurinn í sjónum sé eign allra landsmanna. Með því að lögfesta heimild til að veðsetja slíkar aflaheimildir, þá væri að mínu mati stigið of stórt skref í þá átt að viðurkenna að heimildirnar séu í eigu þeirra sem hafa afnot af þeim hverju sinni.

Hins vegar er það alveg rétt hjá hæstv. sjútvrh. að vilji lánastofnanir taka veð í aflaheimildum skipa er það veruleg áhætta fyrir þau ef óprúttnir útvegsmenn selja þessar aflaheimildir frá viðkomandi skipi. Þetta ástand sýnir að mínu mati mjög vel þann tvískinnung sem ríkir núna varðandi lögin um stjórn fiskveiða þar sem veiðiheimildir þjóðarinnar eru færðar á silfurfati til útgerðarmanna á grundvelli veiðireynslu. Þeir versla síðan með þær dýrum dómi og fara með þær eins og sína eigin eign. Það væri skref í öfuga átt að lögfesta heimildir til veðsetningar aflaheimilda og það er nauðsynlegt að tryggja að 1. gr. fiskveiðistjórnunarlaganna sé virt. Ef aflamarkskerfið verður notað áfram við stjórnun fiskveiða, þá verður þetta ekki gert að mínu mati nema með því að til komi veiðileyfagjald eða að veiðiheimildir verði leigðar út eða boðnar út til skamms tíma í einu. Það verður ekki fyrr en sátt ríkir í reynd um 1. gr. fiskveiðistjórnunarlaganna að hægt verður að fá viðunandi lausn á veðsetningu í sjávarútvegi fyrir fjármálastofnanir.

Ég ætla ekki að tjá mig að öðru leyti um efni frv. en vil taka undir með hv. þm. Sighvati Björgvinssyni að sú skoðun er að verða ráðandi meðal landsmanna og nær hún inn í raðir útgerðarmanna og sjómanna og til þingmanna í öllum flokkum á Alþingi, að það verði að breyta lögunum um fiskveiðistjórnun þannig að tryggt sé að þjóðin sem á auðlindina njóti afraksturs hennar.

Aðgengilegasta leiðin að mínu mati er að bjóða þessar veiðiheimildir út til takmarkaðs tíma eða leigja þær. Það er skref í þveröfuga átt að lögfesta heimild til veðsetningar aflaheimilda. Því fagna ég enn einu sinni að svo fór að þetta ákvæði fór út úr frv. Mér virðist að það hafi núna gerst að ósk Framsfl. þar sem um stjfrv. er að ræða. Ég tel því að það frv. sem núna er til umræðu muni ekki breyta neinu varðandi þær veðheimildir sem tíðkast hjá fjármálastofnunum og því hljóti þær að taka sín veð á eigin áhættu. Ef þetta er ófullnægjandi þarf fyrst að nást sátt um að ,,teoría`` og ,,praxís`` fari saman um að þjóðin eigi auðlindina í hafinu. Það er ekki nóg að tryggja það í orði. Það verður einnig að tryggja það á borði. Og þó að formaður allshn. sem situr í hliðarsal, vitni í einn hæstaréttardóm til að styðja þá skoðun sína að eðlilegt hefði verið að lögfesta heimildir til að veðsetja aflaheimildir, vil ég frekar líta til þeirrar áhættu sem hefðaréttur getur veitt og tel af og frá að lögfesta nú heimild til veðsetningar aflaheimilda.

[14:15]

Það má vel vera að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hafi á réttu að standa að sú breyting sem gerð hefur verið á frv. muni hafa veruleg áhrif. Ef þau áhrif verða einhver, tel ég ljóst að þau munu vera í þá átt að styðja sameignarákvæði fiskveiðistjórnunarlaganna og því fagna ég og Kvennalistinn að sjálfsögðu. Það er kominn tími til að alþingismenn verji hinn lögbundna eignarrétt þjóðarinnar á auðlindinni mun betur en fyrr, áður en sægreifar og peningaöflin hrifsa auðlindina alfarið til sín.