Samningsveð

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 14:28:44 (2641)

1996-02-01 14:28:44# 120. lþ. 82.3 fundur 274. mál: #A samningsveð# frv., GÁ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[14:28]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég ætlaði mér ekki að taka þátt í þessari umræðu en mér varð dálítið ómótt af að hlusta á ræðu hv. 10. þm. Reykn., Kristjáns Pálssonar. Ég sé mig því knúinn til þess að segja örfá orð.

Ég get lýst því yfir að ég styð þetta frv. heils hugar eins og það liggur nú fyrir. En hv. þm. Kristján Pálsson ræðst úr ræðustóli af fullri hörku á Framsfl. varðandi þetta mál. Fyrir hvað? Fyrir það að hann sem þingflokkur fjallaði á lýðræðislegan hátt um málið og tók afstöðu, ekki bara til frumvarpsins heldur og margra einstakra atriða. Og hann segir að hér séu menn að berja sér á brjóst og leika frelsara. Ég hef bara aldrei heyrt annan eins málflutning og aðra eins vanþekkingu. Ég get að vísu sætt mig við það að hv. þm. er nýliði í þinginu og kann kannski ekki þau vinnubrögð sem hér tíðkast.

[14:30]

Við fórum mjög þinglega með þetta mál. Frv. verður til með þeim hætti að það er samið. Það er fjallað um það í ríkisstjórn. Þaðan fer það til þingflokka, ef ríkisstjórnin er sammála um það, til umfjöllunar. Þetta var allt saman gert með þessum hætti. Og fund eftir fund ræddum við þingmenn Framsfl. þetta mál, bæði málið í heild og einstök atriði. Við létum ekkert reka það ofan í kokið á okkur á einum fundi að við yrðum að afgreiða það fyrirvaralaust vegna þess að Sjálfstfl. væri búinn að því heldur vildum við að málið færi frá þingflokki Framsfl. í þeim búningi að menn vissu í fyrsta lagi hvert við vildum fara, hvaða skoðun við hefðum og hvaða atriði ættu að vera í þessu frv. Það er okkar lýðræðislegi réttur. Niðurstaðan varð sú að við sögðum: Þetta frv. verður ekki lagt fram eins og það var. Þetta atriði að veðsetja aflaheimildir verður að fara út úr því. Það var bara samdóma álit þingflokks Framsfl. Ef frv. átti að ná fram varð það atriði að fara út. Ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir leggja það mikla áherslu á þetta ágæta mál sem er auðvitað ágætismál, að Sjálfstfl. fellst á að flytja það þannig. Við höfum ekkert af okkur gert í Framsfl. annað en að taka afstöðu til ákveðins grundvallaratriðis og það er þá það hvort menn eigi að hafa heimildir til þess að veðsetja aflaheimildir og fiskinn í sjónum.

Nú hefur það verið sagt í þessari umræðu að það væru aðallega bankar og sjóðir sem sæktu þetta fast. Ég hef ekki séð betur en bankar og sjóðir hafi getað sett sjávarútvegsfyrirtækin á hausinn hvert á fætur öðru með því að lána þeim allt of mikla peninga þannig að það hefur ekkert skort á heimildir eða vilja til þess að lána þessum fyrirtækjum peninga. Þess vegna þurfti þetta mál ekki í gegn. Ég var hins vegar þeirrar skoðunar sem komið hefur fram í umræðu í mínum þingflokki að þetta snerti hvorki banka eða sjóði. Þetta snertir fyrst og fremst það grundvallaratriði hvort þjóðin eigi þessa auðlind og hvort þingið í framtíðinni geti tekið aðrar ákvarðanir og breytt fiskveiðistefnunni ef svo færi. Ég er ekki spámaður. Það kann vel að vera að hv. þm. Kristján Pálsson sé spámaður. En ég get leikið mér að því að hugsa tíu ár fram í tímann. Ég get hugsað þá hugsun að þá verði komið eitthvert allt annað þing og einhverjar allt aðrar aðstæður og þá segi menn hreinlega: Við skulum breyta fiskveiðilögunum. Þá gæti það hins vegar strandað á því sem til stóð í þessu frv. eins og það var þegar það kom til Framsfl. Þá hefði það orðið erfiðara. Þá hefði útgerðaraðallinn sagt: Árið 1996 heimilaði Alþingi Íslendinga okkur að veðsetja aflaheimildirnar á skipunum. Þar með væri komið upp skaðabótamál og stríð og við værum fastari í því að geta ekki breytt kerfinu.

Nú er ég ekkert að segja að því verði breytt. Ég sé bara enga ástæðu til þess að menn ögri því eitthvað hvað auðlindina varðar. Hún er sameign þjóðarinnar. Þeir menn sem fara með veiðiheimildirnar hafa þar aflaréttindi um þessar mundir og við verðum að geta skipað því með öðrum hætti þegar frá líður. Þess vegna var þetta mín afstaða og ég hygg að flestir þingmenn Framsfl. hafi verið á þeirri skoðun að þeim bæri að verja það að auðlindir væru sameign þjóðarinnar.

Að auki get ég lýst því yfir að ég er sammála hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að ég er andstæðingur auðlindaskatts. Ég er sannfærður um að ef menn taka upp auðlindaskatt mun það gerast með miklum hraða að aflaheimildirnar færast á fáar hendur. Þá verður það fjármagnið sem ræður þannig að ég er andstæðingur auðlindaskatts í ofanálag.

Ég ætla ekki að rökræða þetta mál frekar. Mér sárnaði við þennan hv. þm. að hann skyldi ekki hafa áttað sig á því hvernig þingflokkarnir eru lykilatriði og hvaða frelsi þingmenn hafa. Mér finnst það heiðarlegra að segja frá því í þingflokki Framsfl. að ég vilji fá þetta atriði út. Ef það fari ekki út, þá verði ég á móti málinu uppi í þingi og fyrst það varð niðurstaða þingmanna Framsfl. að þeir mundu aldrei senda málið í gegnum þingið með þessu atriði inni, þá var það heiðarlegt að segja við samstarfsflokkinn: Þetta atriði verður að fara út ef við eigum að afgreiða frv. Það gerðum við. Sjálfstfl. féllst á það. Hæstv. sjútvrh. hefur haldið ágætar ræður og styður frv., ekki veit ég betur, eins og það stendur nú. Þar með sjá allir að það er mikil samstaða um þetta mál og ástæðulaust að vera í svona togi á milli flokkanna. Við höfðum fullt frelsi til að taka afstöðu til málsins og gerðum það með myndarlegum hætti. Við höfum ekki verið að baða okkur í þessari umræðu. Ég er fyrsti þingmaður flokksins sem heldur ræðu í þessari umræðu hér. Hv. þm. Hjálmar Árnason fór í stutt andsvar áðan að gefnu tilefni. Við erum í fullri samvinnu og heilindum við Sjálfstfl. í þessu máli og ég vænti þess að það verði að lögum og geri það að verkum að menn standi sáttari á eftir við núverandi fiskveiðistjórnun en áður.