Samningsveð

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 14:55:18 (2652)

1996-02-01 14:55:18# 120. lþ. 82.3 fundur 274. mál: #A samningsveð# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[14:55]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Það eru tvær spurningar sem mér liggja á hjarta. Í fyrsta lagi langar mig til að spyrja hv. þm. Einar Odd Kristjánsson hver að hans áliti eigi kúfiskinn frá Siglunesi að Skagatá.

Í öðru lagi leyfi ég mér að vitna í þá umræðu sem hann hafði frammi hér áðan þar sem hann orðaði það svo að menn væru í síbylju að tala um nauðsyn endurskoðunar á lögum um stjórn fiskveiða. Hver hefur haft þá síbylju meira í frammi heldur en hann, hv. þm.? Fyrir tæpu ári sagði hann á Alþingi að sú endurskoðun sem hann boðaði yrði á því hausti sem nú er liðið. Endurskoðunin fór ekki fram á því hausti. Hann boðaði að hann mundi sjálfur flytja tillögur og beita sér fyrir tillögum um breytingu á þessu fiskveiðistjórnunarkerfi með tillögu um flotastýringu. Þær komu ekki fram á þessu hausti. Ég spyr því hv. þingmann, sem manna mest hefur verið með síbyljunauðsyn endurskoðunar á lögum um stjórn fiskveiða: Mun hann leggja fram þær tillögur sínar um þá endurskoðun á þessu þingi?