Samningsveð

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 15:01:33 (2655)

1996-02-01 15:01:33# 120. lþ. 82.3 fundur 274. mál: #A samningsveð# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[15:01]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er nú frekar lágkúrulegt að vera að gera þá atburði sem urðu til þess að landsfundi Sjálfstfl. var frestað að umræðu hér.

Ég veit það ósköp vel að þegar menn úthluta sérleyfum til t.d. veiða á kúfiski, þá er það leyfi séreign þess sem fær það. Þetta umrædda félag sem ég er stjórnarformaður í hefur þennan rétt. Það er séreignarréttur. Þetta félag er með það og ... (Gripið fram í.) Hann er með þennan sérrétt til að veiða fyrir sig vegna þess að hann hefur rétt til að vinna þetta í iðnaðarframleiðslu. Þess vegna er hann að veiða það. Án þessa réttar ... (SighB: Hann hefur ekki sérrétt til að veiða. Bara til að vinna.) Hann væri ekki að veiða ef hann hefði ekki sérréttinn til að vinna og það byggist á lögunum frá 1976 um samræmingu veiða og vinnslu. Ég er búinn að taka þetta fram, hv. þm., þannig að það fer ekkert á milli mála á hvaða lagagrunni þetta er byygt. Þar kemur þetta skýrt fram hvers vegna. (SighB: Það er rangt.) Það er rétt. (SighB: Það er rangt ...) Síðan liggur það fyrir, það er alveg rétt, að það var grundvallaratriði fyrir þetta viðkomandi félag sem þarna á í hlut öðlast þennan rétt. Öðruvísi gat félagið ekki farið í að leita sér markaða fyrir þá afurð sem það hugðist framleiða. Þetta á ekkert skylt við það sem við vorum að tala saman um. Það liggur fyrir um landhelgi Íslands að auðvitað eru það stjórnvöld landsins sem gefa þetta leyfi. Það lá alltaf fyrir. Það lá fyrir áður en fyrstu lögin um aflamörk voru sett á Íslandi. Þetta eru miklu eldri lög þannig að menn þurfa ekkert að velkjast í vafa um það að lögin um landhelgina voru alveg skýr.