Samningsveð

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 15:13:49 (2659)

1996-02-01 15:13:49# 120. lþ. 82.3 fundur 274. mál: #A samningsveð# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[15:13]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Hafi það verið tilgangur hæstv. sjútvrh. með þessari tillögu sinni að takmarka framsalsrétt útgerðarmanna á aflaheimildum af hverju flutti hann þá ekki tillögu um að það yrði gert? Það stendur honum enn opið ef það er það eina sem fyrir honum vakir. Hvers vegna skyldi hann þá ekki gera það? Ef lánastofnanir ætla sér að taka svokallað veð í kvóta þá byggist það á skriflegri yfirlýsingu útgerðarmanns að hann muni hvorki leigja eða selja kvóta. Það er áhættan sem lánastofnunin tekur vegna þess að það er ekki heimilt samkvæmt lögum að taka veð í aflaheimildum með sama hætti og í fasteignum og með sömu kvöðum sem þar gilda. Það hefur verið gerð tilraun til að koma því fram í lagasetningu. Það hefur verið gert fjórum sinnum. Um það hafa staðið deilur á Alþingi. Þeirri tilraun hefur nú verið hnekkt og þar er betra af stað farið en heima setið. Um önnur mál ætla ég ekki að skattyrðast við hæstv. sjútvrh. en ég ráðlegg honum að tala frekar við samstarfsmenn sína í Framsfl. einslega heldur en að vera að skamma þá hér á Alþingi með þeirri aðferð sem kennd hefur verið við að skamma Albani fyrir Kínverja. Það er auðvitað alveg ljóst við hvern hann er að tala. Hann er ekki að tala við okkur stjórnarandstæðinga. Hann er að tala við samstarfsmenn sína í Framsfl. en notar þessa aðferð til þess. En ég ítreka að það hefði aldrei getað gerst nema fyrir frumkvæði hæstv. sjútvrh. að þessi tillaga var felld. Það er fagnaðarefni að það skuli hafa gerst.