Samningsveð

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 15:19:25 (2662)

1996-02-01 15:19:25# 120. lþ. 82.3 fundur 274. mál: #A samningsveð# frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[15:19]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Bankar og aðrar lánastofnanir og lánveitendur geta ekki tekið veð í öðrum hlutum en þeim sem lög heimila. Bæði önnur ákvæði í þessum lögum og ákvæði í fiskveiðistjórnunarlögum gera það að verkum að það hefur verið og verður að óbreyttu gildandi regla í landinu að það er unnt að taka slíkar veðsetningar. Hvort sem þetta ákvæði sem við erum að tala um hefði verið í lögunum eða ekki hefðu slíkar veðsetningar falið í sér ákveðna áhættu eins og allar veðsetningar. Þeir sem lána peninga út á þetta taka alltaf áhættu varðandi rýrnun á veði. Við setjum samt lög um veðsetningar í þeim tilgangi að tryggja örugg og heiðarleg viðskipti. Tilgangurinn með því að takmarka framsal á veðsettum heimildum var einungis að tryggja að óprúttnir útgerðarmenn gætu ekki framselt það sem þeir höfðu áður veðsett. Það eina sem hv. þingmaður og aðrir sem staðið hafa á móti þessu hafa náð fram er að gefa óprúttnum útvegsmönnum meira svigrúm til að framselja veðsettar aflaheimildir. Það er eini árangurinn, þótt það sé fjarri mér að halda því fram að það hafi verið ætlun þeirra.