Nýting innlends trjáviðar

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 15:32:29 (2665)

1996-02-01 15:32:29# 120. lþ. 82.5 fundur 184. mál: #A nýting innlends trjáviðar# þál., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[15:32]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil nota þetta tækifæri og óska þingmanninum til hamingju með þessa ágætu tillögu sem ég held að sé hans fyrsta hér á þinginu. Þetta er einmitt tillaga að mínu skapi vegna þess að það er verið að leggja til að nýta það sem til fellur, nýta það sem við eigum. Þetta er tillaga sem felur í sér töluverða atvinnusköpun. Það er tímanna tákn að það skuli vera hægt að flytja tillögu af þessu tagi sem sannar að hér hefur veruleg uppbygging átt sér stað.

Mig langar að skjóta einni hugmynd að hv. flm. Þegar menn fara að huga að því hvernig megi nýta trjávið sem til fellur, þá er hann tilvalinn til leikfangagerðar. Þar held ég að sé nokkur markaður og margar hugmyndir sem mætti nýta. Ég minnist þess að hafa séð leikföng úr tré sem eru auðvitað náttúruvæn og ekki skaðleg börnum og hægt er að gera margt mjög skemmtilegt með.