Nýting innlends trjáviðar

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 15:35:27 (2667)

1996-02-01 15:35:27# 120. lþ. 82.5 fundur 184. mál: #A nýting innlends trjáviðar# þál., ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[15:35]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Ef upphafsmenn skógræktar á Íslandi hefðu lifað þann dag að heyra þessa tillögu flutta tel ég að þeim þættu mikil og merk tíðindi að þáltill. væri flutt hér ekki aðeins um að nytja þann skóg sem ræktaður er á Íslandi heldur að líka mætti nota þann við sem félli til við vinnsluna sjálfa. Mér þykir ástæða til að fagna þessu og óska Ísólfi Gylfa Pálmasyni, hv. 4. þm. Suðurl., til hamingju með þessa þáltill. Ég styð hana heils hugar.

Mér þykir umfram þau hagsýnissjónarmið sem fram koma í tillögunni og vitna að sjálfsögðu um þær viðhorfsbreytingar sem eru hér á landi, ástæða til að víkja örfáum orðum að umhverfismálum. Ég tel að þetta sé liður í umhverfisnýtingu íslenskrar náttúru og ákjósanlegt skref til að nýta auðlindir landsmanna sett fram í skýru dæmi. Ég held einmitt að það hugarfar að við nýtum auðlindir þessa lands með sem bestum hætti eins og lýsir sér í tillögunni og vonandi þeim framkvæmdum sem fylgja mætti einmitt koma fram víðar, hvort sem er til sjávar eða sveita.