Staða heilsugæslunnar

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 15:38:42 (2669)

1996-02-01 15:38:42# 120. lþ. 82.91 fundur 171#B staða heilsugæslunnar# (umræður utan dagskrár), MF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[15:38]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er varla hægt að segja að stefnufesta og öryggi ríki innan heilbrigðis- og tryggingakerfisins þessa dagana. Eina ferðina enn ganga yfir ýmis konar skerðingar á bótagreiðslum til þeirra sem minnst mega sín. Eina ferðina enn er starfsfólki sjúkrahúsa gert að hagræða og spara án skilgreininga á hlutverki og þjónustustigi viðkomandi stofnunar. Aldraðir sem dvelja inni á stofnunum skulu greiða meira fyrir þá þjónustu sem þeir fá án þess að greiðslur til þeirra hækki. Dregið hefur verið úr aðstoð við fatlaða og einstæðir foreldrar hafa einnig fengið að kenna á hnífnum. Nefndir eru að störfum þar sem boðaðar eru breytingar á heilbrigðiskerfinu, forgangsröðun og svokölluð heilbrigðiskjördæmi með einni yfirstjórn. Þegar ein stétt innan heilbrigðiskerfisins lýkur löngu verkfalli vegna skertra kjara tekur önnur við. Í gær sögðu 127 heilsugæslulæknar eða 90% allra heilsugæslulækna á landinu upp störfum frá og með 1. febrúar. Baráttan fyrir bættum kjörum er þar ekki aðalatriði þó það eigi örugglega einhvern þátt í þessum aðgerðum að samningar við heilsugæslulækna hafa verið lausir í rúmt ár. Aðalástæða uppsagnanna er að með aðgerðum sínum vilja heilsugæslulæknar knýja fram svör við spurningunni: Á að ríkja skipulag í heilbriðgisþjónustunni í landinu eða skipulagsleysi? Þessi spurning brennur á flestum landsmönnum þessa dagana og menn væntu svara frá hæstv. heilbrrh. án þess að til svo róttækra aðgerða þyrfti að koma.

Í fréttatilkynningu frá Félagi íslenskra heilsugæslulækna segir, með leyfi forseta:

,,Þolinmæði heilsugæslulækna er þrotin. Þeir geta ekki lengur horft aðgerðarlausir á þá uggvænlegu þróun í heimilislækningum sem beinlínis ógnar frumþjónustu heilbrigðiskerfisins. Aðgerða- og stefnuleysi stjórnvalda kallar á að læknar spyrni við fótum. Uppsagnir í dag sýna glöggt alvöru málsins. Neyðarástand sem óhjákvæmilega kann að skapast vegna þessa verður að skrifa á reikning stjórnvalda. Þau hafa ítrekað verið vöruð við því að sjálft skipulag heilsugæslu bókstaflega hrynji ef svo fer sem horfir, fyrst á höfuðborgarsvæðinu og svo á landsbyggðinni.

Hæstv. ráðherra. Heilsugæslulæknar vilja verja skipulagða heilbrigðisþjónustu.``

Í gildandi lögum og reglugerðum er kveðið á um hlutverkaskiptingu í heilbrigðisþjónustunni. Þar kemur skýrt fram að meginregla skuli vera sú að samskipti sjúklings og læknis hefjist hjá heilsugæslu- eða heimilislækni. Í 19. gr. laga um heilbrigðisþjónustu er kveðið á um hvert hlutverk heilsugæslu eigi að vera en þar segir, með leyfi forseta:

,,19.1. Á heilsugæslustöð eða í tengslum við hana skal veita þjónustu eftir því sem við á og hér segir:

1. Almenn læknisþjónusta, hjúkrunarþjónusta, sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, vaktþjónusta, vitjanir og sjúkraflutningar.

2. Lækningarannsóknir.

3. Sérfræðileg læknisþjónusta, tannlækningar og læknisfræðileg endurhæfing.

4. Heimahjúkrun.

5. Heilsuvernd. Aðalgreinar heilsuverndar eru:

Heilbrigðisfræðsla í fyrirbyggjandi tilgangi.

Mæðravernd.

Ungbarna- og smábarnavernd.

Heilsugæsla í skólum.

Ónæmisvarnir.

Berklavarnir.

Kynsjúkdómavarnir.

Geðvernd, áfengis-, tóbaks- og fíkniefnavarnir.

Sjónvernd.

Heyrnarvernd.

Heilsuvernd aldraðra.

Hópskoðanir og skipulögð sjúkdómaleit.

Félagsráðgjöf, þar með talið fjölskyldu- og foreldraráðgjöf.

Umhverfisheilsuvernd.

Atvinnusjúkdómar, sbr. og lög nr. 46/1980.

Slysavarnir.``

Af þessari upptalningu má ljóst vera að hér er um að ræða mikilvæga undirstöðu heilbrigðisþjónustunnar. Uppbygging öflugrar þjónustu heilsugæslu hefur gengið vel úti um landsbyggðina en hér á höfuðborgarsvæðinu hefur uppbyggingin setið á hakanum og er ekki í neinum takti við þá fjölgun íbúa sem orðið hefur á síðustu árum. E.t.v. geldur þessi frumþáttur heilbrigðisþjónustunnar nálægðarinnar við hátæknisjúkrahúsin í Reykjavík og aukna starfsemi sérfræðinga utan súkrahúsa. Þetta er þó ekki heillavænleg þróun þar sem slík starfsemi getur aldrei komið í stað öflugrar starfsemi heilsugæslustöðva.

Forvarnir hvers konar hafa verið mikið í umræðunni undanfarið. Sérstaklega í tengslum við þá umræðu sem átt hefur sér stað um stóraukna fíkniefnaneyslu. Hæstv. heilbrrh. hefur í sínu máli aftur og aftur lagt áherslu á mikilvægi hvers konar forvarnastarfs. En eins og fram kom áðan gegna heilsugæslustöðvar mikilvægu hlutverki í hvers konar forvarnastarfsemi. Ég er þeirrar skoðunar að það að efla starfsemi heilsugæslunnar um land allt sé í raun besta fjárfestingin í heilbrigðiskerfinu og sú eina sem dugir ef ná á fram hagkvæmni og sparnaði til lengri tíma litið. Það er slæmt og lýsir því vel hversu mikið stjórnleysi og stefnfuleysi er ríkjandi í heilbrigðismálum að heilsugæslu- og heimilislæknar skuli þurfa að segja upp störfum til að vekja athygli yfirvalda á mikilvægi þessarar starfsemi. Reyndar ekki bara stjórnvalda heldur okkur allra því fjárveitingar sl. ára sýna svo ekki verður um villst að við höfum ekki virt mikilvægi þessa grunnþáttar heilbrigðisþjónustunnar sem skyldi. En það er þannig að 1991 eru framlög til heilsugæslu 1,8 milljarðar kr., 1992 1,6 milljarðar kr., 1993 1,9 milljarðar kr., 1,8 milljarðar kr., árið 1994, 1995 eru greiðslur samkvæmt ríkisreikningi 1,8, tæplega 1,9 milljarðar en í fjárlögum þessa árs er 1,6 milljarðar, reyndar eru tæplega 1,7 milljarðar ætlaðir til þessarar starfsemi. Þetta sýnir í raun þá virðingu sem við berum fyrir þessum grunnþætti heilbrigðisstarfseminnar. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvernig ætlar hún að bregðast við fjöldauppsögnum heilsugæslulækna? Hver eru svör hæstv. heilbrrh. varðandi spurningu íslenskra heimilislækna: Á að ríkja skipulag í heilbrigðisþjónustunni í landinu eða skipulagsleysi? Hvers konar skipulag vill hæstv. ráðherra? Mun hún beita sér fyrir því að starfað verði eftir núgildandi lögum um heilbrigðisþjónustu hvað varðar verkaskiptingu? Og mun ráðherrann beita sér fyrir því að starfsemi heilsugæslu verði efld? Hún er besta forvarnastarfsemin sem við eigum.