Staða heilsugæslunnar

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 15:58:47 (2674)

1996-02-01 15:58:47# 120. lþ. 82.91 fundur 171#B staða heilsugæslunnar# (umræður utan dagskrár), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[15:58]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Í umræðum um stöðu heilbrigðismála sem fram fór í Ríkisútvarpinu í morgun komst Sigurður Björnsson, krabbameinslæknir og formaður Læknafélagsins, þannig að orði að neyðarástand ríkti á stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík. Þar við bætist að 90% heilsugæslulækna í landinu hafa sagt upp störfum sem sýnir og sannar að íslenska heilbrigðiskerfið er í algjöru uppnámi ef ekki upplausn. Handahófskenndur og vanhugsaður niðurskurður undanfarinna ára á þar stóran hlut að máli. En hann veldur að sjálfsögðu mikilli togstreitu innan heilbrigðiskerfisins auk þess að valda sjúklingum ómældu angri og jafnvel tjóni.

Rætur þeirrar deilu sem opinberaðist í gær er að finna í stefnuleysi, vaxandi misvægi milli almennrar heilsugæslu og sérfræðiþjónustu og í afar hægri uppbyggingu heilsugæslustöðva í Reykjavík sem m.a. hefur leitt af sér auknar heimsóknir til sérfræðinga án milligöngu heimilislækna. Að sögn héraðslæknisins í Reykjavík eru nú níu heilsugæslustöðvar í borginni og á Seltjarnarnesi en ættu að vera tíu samkvæmt áætlun um þörf. Gallinn er bara sá að sex af þessum níu stöðvum eru í allt of litlu húsnæði miðað við þann mannfjölda sem þær eiga að þjóna. Sem dæmi má nefna að heilsugæslustöð Vesturbæjar var hönnuð fyrir þjónustu fyrir 6.000 manns en sinnir 12.000 manna hverfi. Þúsundir Reykvíkinga eru utan heilsugæslustöðva og er talið að þær nái til 65--70% borgarbúa enda vandinn langmestur hér í höfuðborginni. Það er því ekki að furða að fjöldi fólks leitar beint til sérfræðinga enda ekki oft annarra kosta völ.

Hæstv. forseti. Heilsugæslulæknar auglýsa eftir stefnu stjórnvalda í heilbrigðismálum. Þeir telja á sér brotið og að áherslur séu rangar. Hér er um svo alvarlegt mál að ræða að það hlýtur að hafa algjöran forgang að skilgreina verkaskiptingu á milli heilsugæslulækna og sérfræðinga upp á nýtt jafnframt því að sinna þörfum Reykvíkinga fyrir heilsugæslu til fullnustu. Það dugar ekki að vera óánægð með vinnubrögð heilsugæslulækna, hæstv. heilbrrh. Hér er svo stórt mál á ferð að um það þarf að nást pólitísk samstaða. Ég skora á hæstv. heilbrrh. að kalla stjórnarandstæðinga að þeirri stefnumótun sem nauðsynlega þarf að fara fram og það strax í ljósi þess erfiða ástands sem við stöndum nú frammi fyrir.