Staða heilsugæslunnar

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 16:00:58 (2675)

1996-02-01 16:00:58# 120. lþ. 82.91 fundur 171#B staða heilsugæslunnar# (umræður utan dagskrár), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[16:00]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Virðulegi forseti. Það eru alvarleg tíðindi að um 90% heilsugæslulækna í landinu hafi sagt hafi sagt upp störfum. Hverjar eru ástæðurnar sem upp eru gefnar? Í fyrsta lagi að stefna stjórnvalda í heilbrigðismálum sé ekki nógu skýr og það skorti heildaryfirsýn. Í öðru lagi að það liggi ekki fyrir hvernig haga eigi verkaskiptingu innan heilbrigðiskerfisins. Lítum nánar á þessi atriði. Hér á landi hefur á undanförnum áratugum verið byggð upp öflug heilbrigðisþjónusta sem stenst fyllilega samanburð við það besta sem þekkist með öðrum þjóðum. Ein af styrkustu stoðum þess kerfis sem við höfum byggt upp er þjónusta heilsugæslustöðvanna um allt land sem tryggir frumþjónustu við landsmenn alla hvað þennan málaflokk varðar. Þessi mál öll verður að skoða ofan í kjölinn og það er slæmt ef heilsugæslulæknar meta það svo að þeir hafi á einhvern hátt orðið úti í þeirri umræðu sem verið hefur um heilbrigðismál á síðustu árum og hagsmunir heilsugæsluþjónustunnar á einhvern hátt verið fyrir borð bornir. Sérstakt áhyggjuefni er að stöðugt færri læknar sæki sérnám í heimilislækningum þar eð það getur í rauninni leitt til þess að ekki verði eðlileg endurnýjun í þessum hópi innan læknastéttarinnar. Hér er stórt mál á ferðinni sem þarfnast skjótra viðbragða og úrlausnar og áhyggjur heilsugæslulækna af skipulagi heilbrigðisþjónustu í landinu og kjarabarátta þeirra sjálfra blandast greinilega saman. Ég vara við að þessu tvennu sé blandað saman í umræðunni um þessi mál. Aðalatriðið er að við stöndum vörð um þá þjónustu sem þegar hefur verið byggð upp á heilsugæslustöðvunum, vinnum ötullega að áframhaldandi öflugri og eðlilegri uppbyggingu heilsugæsluþjónustunnar í landinu og tryggjum þannig öryggi og aðgang allra landsmanna að þeirri frumþjónustu í heilbrigðismálum sem heilsugæslustöðvarnar veita.