Staða heilsugæslunnar

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 16:03:34 (2676)

1996-02-01 16:03:34# 120. lþ. 82.91 fundur 171#B staða heilsugæslunnar# (umræður utan dagskrár), SF
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[16:03]

Siv Friðleifsdóttir:

Herra forseti. Heilsugæslulæknar hafa komið því skýrt til skila að undanförnu að uppsagnir þeirra eru vegna almennrar þróunar síðustu ára, ekki vegna aðhaldsaðgerða sem núna eru uppi í heilbrigðiskerfinu. Það er því rangt sem hér hefur komið fram að þetta sé eitthvert sérstakt dægurmál dagsins í dag. Þetta er almenn þróun. Hér hafa menn lýst ástandinu og við vitum hvernig það er. Sjúklingar geta farið hvert sem þeir vilja. Þeir geta farið til sérfræðings. Þeir geta farið til heilsugæslulæknis. Það er að vísu nokkur verðstýring á þessum tveimur leiðum þar sem það kostar helmingi meira að fara til sérfræðings en til heilsugæslulæknis. Ég held að flestir séu sammála um að það þarf að skoða þá þróun sem hefur verið. Segja má að nú ríki óheft samkeppni á milli sérfræðinga og heimilislækna á höfuðborgarsvæðinu. Það getur verið mjög óæskilegt. Það má segja að það sé mjög freistandi fyrir sérfræðing í þessari miklu samkeppni að fá til sín sjúkling, hugsanlega að óþörfu. Þá er maður kominn að þeirri spurningu, er samkeppnin svo mikil að sérfræðingar eru farnir að vinna nánast sem heimilislæknar?

Hér hefur verið komið inn á ýmis atriði eins og tilvísunarkerfið. Viljum við fara þá leið? Í fréttum í gærkvöldi sagði Katrín Fjeldsted, formaður heimilislækna, að hún vildi ekki skoða þá leið. Það ætti að taka það orð út úr orðabókinni. Hvaða leiðir á þá að skoða? Á að vera með meiri verðstýringu? Á að fara dönsku leiðina þar sem mér skilst að fólk merki við skattkort sitt hvernig það vill greiða fyrir heilbrigðisþjónustu sína eða hvaða leiðir á að fara?

Ég er svo sannarlega sannfærð um að hæstv. heilbrrh., Ingibjörgu Pálmadóttur, muni takast í samráði við Læknafélagið þó þar séu mjög skiptir hagsmunir í húfi að koma fram með þær lausnir sem þarf til þess að leysa þetta mál.