Staða heilsugæslunnar

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 16:11:52 (2679)

1996-02-01 16:11:52# 120. lþ. 82.91 fundur 171#B staða heilsugæslunnar# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[16:11]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir málefnalega umræðu um heilsugæsluna. Ég tel að hún hafi verið málefnaleg á margan hátt. Stjórnarandstaðan hefur kvartað yfir því að hún komi ekki að stefnumálum í heilbrigðisþjónustunni. Ég minni þá sem það segja á að stjórnarandstaðan kemur að nefnd um heilbrigðisstjórnir í kjördæmum, hún kemur að endurskoðun heilbrigðisáætlunar og hún kemur að forgangsröðun verkefna í heilbrigðismálum. Það koma því bæði fagaðilar og stjórnarandstaða að þessum málum. Það er mjög mikilvægt vegna þess að þetta er málefni sem þarf að ríkja sátt um. Ef einhver skyldi hafa gleymt því minni ég á að formaður heilbr.- og trn. er ekki úr stjórnarliðinu. Hér hefur verið komið inn á það að ef við hefðum tekið upp tilvísunarkerfið hans Sighvatar Björgvinssonar stæðum við ekki frammi fyrir þessum vanda sem við stöndum í dag. Ég tel það ekki rétta ályktun enda hefur það komið fram hjá Katrínu Fjeldsted, formanni heimilislækna, að það hefði ekki leyst þann vanda sem við stöndum frammi fyrir í dag en viðræður eru þegar hafnar við heilsugæslulækna og ég vænti að sjálfsögðu góðs af þeim.