Starfsþjálfun í fyrirtækjum

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 16:21:11 (2681)

1996-02-01 16:21:11# 120. lþ. 82.7 fundur 210. mál: #A starfsþjálfun í fyrirtækjum# þál., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[16:21]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Með þessari þáltill. er hreyft þörfu máli, þ.e. að tryggja iðnnemum þá starfsþjálfun sem þeir þurfa að fá á vinnustað til að ljúka námi sínu og hljóta starfsréttindi. Á þessu hefur verið mikill misbrestur á undanförnum árum sem hefur valdið mörgum nemum miklum erfiðleikum. Mörg dæmi eru um að nemar hafi ekki fengið þessa starfsþjálfun og því ekki getað lokið sveinsprófi og hlotið full iðnréttindi. Þetta hefur verið vandamál, ekki síst á undanförnum árum þegar margar iðngreinar hafa búið við mikinn samdrátt og erfiðleika í rekstri vegna þeirra efnahagsþrenginga sem Íslendingar hafa glímt við. Til dæmis hafa skipasmiðjurnar, sem á undanförnum áratugum hafa verið mjög afkastamiklar uppeldismiðstöðvar fyrir iðnaðarmenn, orðið að fækka mjög starfsmönnum sínum vegna rekstrarerfiðleika. Þær hafa því ekki getað tekið við iðnnemum í sama mæli og áður sem leiðir svo aftur til þess að nú, þegar skipaiðnaðurinn er í mikilli sókn og verkefni skipasmíðastöðvanna stóraukast samhliða nýjum verkefnum í stóriðju, er farið að bera á skorti á járniðnaðarmönnum. Þetta er auðvitað afleitt og því nauðsynlegt að móta stefnu um starfsþjálfun eins og þessi tillaga gerir ráð fyrir til að tryggja eðlilega endurnýjun einstakra starfsstétta iðnaðarmanna þó að tímabundnir erfiðleikar steðji að viðkomandi iðngrein.

Eins og fram kemur í greinargerð með þessari tillögu gerir frv. til laga um framhaldsskóla ráð fyrir verulegri áherslu á starfsnám, ekki síst nýjar starfsmenntabrautir. Nokkrir framhaldsskólar eru nú að búa sig undir rekstur slíkra brauta þar sem m.a. er gert ráð fyrir starfsþjálfun á vinnustöðum. Það verður því að tryggja það að nemarnir fái þessa starfsþjálfun. Annars er skólanám þeirra lítils virði og jafnvel hrein tímasóun og útgjöld. Það er svo spurning hvort ekki þarf að stýra fjölda iðnnema í einstökum iðngreinum þannig að fólk flykkist ekki í nám í greinum sem bjóða ekki upp á mikinn fjölda starfa. Ég minnist þess að þegar fyrst var boðið upp á iðnnám í fjölbrautaskólum án samnings við fyrirtæki fór mikill fjöldi ungmenna í ýmis fög sem þá voru í tísku. Til dæmis fóru mjög margir í rafvirkjun og hárskurð. Margir þessara nema komust aldrei í þá starfsþjálfun sem þeir þurftu hjá fyrirtækjum til að ljúka sveinsprófi, einfaldlega vegna þess að þessar iðngreinar voru ekki það fjölmennar að þær gætu tekið við öllum þessum nemum.

Mér finnst ástæða til að fagna þeirri auknu áherslu sem nú er lögð á starfsnám og verkmenntun. Iðnnemar hafa á undanförnum árum haft um þrjár leiðir að velja til iðnnáms sem í flestum tilvikum tekur fjögur ár. Ein leiðin er að gera samning við meistara. Í flestum tilvikum öðlast þeir þá starfsþjálfun hjá meistaranum en sækja samhliða bóklegt nám í iðnskóla. Önnur leiðin er að ljúka bóklegu og verklegu námi í skóla og fara að því loknu í starfsnám hjá meistara. Þriðja leiðin er að byrja í bóklegu námi og ljúka þar ákveðnu grunnnámi en gera síðan þriggja ára samning við meistara. Af þessum þremur leiðum tel ég að sú leið að ljúka bóklegu og verklegu námi í skóla og fara síðan í starfsnám hjá meistara sé sú besta. Sú aðferð hefur reynst mjög vel og nemar sem þannig hafa komið til starfa í iðnfyrirtækjunum hafa þekkingu á undirstöðu viðkomandi iðngreina, kunna að nota helstu vélar og tæki og eru alla jafna vel undir sjálft starfsnámið búnir. En það verður að finna leið til að tryggja þeim sem hefja slíkt nám í skóla að þeir fái þá starfsþjálfun sem þarf til að ljúka námi og fá full starfsréttindi. Þessi tillaga er gott innlegg í það mál og ég lýsi stuðningi við hana.

Fyrst verið er að ræða hér starfsþjálfun og iðnnám þá langar mig að minnast í örfáum orðum á réttindi þeirra sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með stunda mikið bóklegt nám. Ég vara við því að þeim sé gert ókleift að öðlast iðnréttindi. Ég legg áherslu á það að þurfa að vera tvö stig í iðnnáminu með svipuðum hætti og er í málmiðnaðinum í dag þar sem nemar geta með tveggja ára námi orðið sveinar í rafsuðu. Í þessu tveggja ára námi eru mun færri bókleg fög heldur en t.d. í vélvirkjun og plötusmíði og þessir sveinar geta ekki orðið meistarar nema að undangengnu frekara námi. Ég tel sjálfsagt að þeir sem vilja vinna við málmiðnað geti öðlast réttindi með þessum hætti og veit að margir afbragðs iðnaðarmenn hafa útskrifast úr rafsuðunáminu, bæði þeir sem ekki hafa treyst sér í það skólanám sem fylgir fullu iðnnámi og eins fjölskyldumenn sem ekki hafa treyst sér af fjárhagsástæðum til að sitja fjórar annir í skóla. Margir þessara iðnaðarmanna hafa haldið áfram námi síðar og lokið þá námi í vélvirkjun, plötusmíði eða öðrum málmiðnaðargreinum. Mér finnst þessi þáttur iðnnámsins afar mikilvægur og tel sjálfsagt mál að iðnfræðslan miðist ekki við að allir þurfi að verða meistarar.

Ég ítreka suðning við þessa tillögu og vona að hún fái góða skoðun í nefnd og afgreiðslu hér frá Alþingi í vetur.