Starfsþjálfun í fyrirtækjum

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 16:33:26 (2684)

1996-02-01 16:33:26# 120. lþ. 82.7 fundur 210. mál: #A starfsþjálfun í fyrirtækjum# þál., GHall
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[16:33]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Þessi þáltill. er allrar athygli verð og einkum og sér í lagi í ljósi þess sem hér hefur komið fram í umræðunni. Það hefur nú og oft nokkra vetur áður hér á þingi verið rætt um það hvernig standa beri að starfsþjálfun og almennt að námi í iðngreinum. Það er ekki langt síðan Aflvaki Reykjavíkur sendi frá sér mikla greinargerð um stöðu þessara mála í menntakerfinu og þá kemur í ljós að Íslendingar eru á allt annarri braut heldur en nágrannaþjóðir okkar hvað varðar iðnnám ungmenna.

Hér á Íslandi leggja yfir 60% ungmenna leið sína í háskóla en rétt um 40% fara í iðnnám. Það er alveg í öfugu hlutfalli við það sem gerist á hinum Norðurlöndunum. Þess vegna tel ég að þessi þáltill. sé athyglinnar verð og mjög í tíma töluð þau orð sem fram hafa komið hjá hv. þm. um þessa þáltill. sem ég styð heils hugar. Ég tel að það sé full ástæða til þess að taka iðnmenntunina í landinu miklu fastari tökum en nú er. Þetta er eitt spor í þá átt. Það á auðvitað að gefa ungu fólki möguleika og tækifæri til þess að fara í iðnnám og það á líka að gefa iðnnáminu þann gaum að ungt fólk sem fer úr framhaldsskólanámi í iðnnám líti ekki á það með einhverri lítilsvirðingu. Við þurfum að snúa þessari mórölsku hlið við þannig að fólk líti ekki á sig sem einhverja aukvisa í þjóðfélaginu þótt það fari í iðnnám. Ég vona svo sannarlega að okkur takist það því það er full þörf á að taka heldur betur til hendi varðandi iðnnám svo að við Íslendingar verðum ekki aftarlega á merinni hvað það áhrærir með tilliti til þess sem ég sagði áðan um að við erum á allt öðru róli heldur en Norðurlandaþjóðir.