Loftpúðar í bifreiðum

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 16:49:59 (2689)

1996-02-01 16:49:59# 120. lþ. 82.9 fundur 219. mál: #A loftpúðar í bifreiðum# þál., Flm. ÓÖH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[16:49]

Flm. (Ólafur Örn Haraldsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um að veittur verði afsláttur af vörugjaldi bifreiða en þáltill. hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna að því að veittur verði afsláttur af vörugjaldi bifreiða sem búnar eru sérstökum loftpúðum í öryggisskyni.``

Ég flyt þessa þáltill. ásamt hv. þm. Guðna Ágústssyni og hv. þm. Hjálmari Árnasyni.

Meginatriði þáltill. er að auka öryggi fólks í umferðinni, þ.e. auka öryggi þeirra sem aka í bílum. Það verður gert best með því að þeir loftpúðar, sem hér eru gerðir að umtalsefni og tillöguefni, komi í sem flesta bíla en í því efni væri hægt að ná árangri með því að fella niður vörugjald af loftpúðunum. Rannsóknir sýna að notkun loftpúða dregur verulega úr fjölda alvarlegra áverka af völdum umferðarslysa. Þannig hefur reynslan af notkun loftpúða í Bandaríkjunum leitt í ljós að dauðaslysum fækkar um 20%. Gildir það bæði um þá sem nota öryggisbelti í umferðinni og þá sem nota ekki belti. Hins vegar hafa rannsóknir sýnt að loftpúðarnir koma fyrst og fremst að gagni þegar öryggisbeltin eru notuð jafnframt.

Rannsókn á tíðni meðal- og alvarlegra áverka í umferðinni í Bandaríkjunum árið 1991 sýndi að slíkir áverkar voru um 25--29% færri meðal ökumanna í bifreiðum af árgerð 1990 sem búnir voru loftpúðum en meðal ökumanna í bifreiðum sömu árgerðar sem voru einungis búnar bílbeltum. Innlagnir á sjúkrahús voru 24% færri meðal ökumanna í bifreiðum sem búnar voru loftpúðum. Þannig eru loftpúðar þýðingarmikill öryggisbúnaður til viðbótar við öryggisbelti.

Flestir eru sammála um að nauðsynlegt sé að hafa loftpúða í bifreiðum í framtíðinni. Eins og lögum er nú háttað hækkar öryggisbúnaður eins og loftpúðar bílverð verulega. Afsláttur af vörugjaldi bifreiða, sem búnar eru loftpúðum, ætti því að vera sjálfsagt mál. Með slíkum afslætti aukast líkur á örari útbreiðslu loftpúða í bifreiðum. Enda þótt tekjur ríkissjóðs skerðist sem nemur afslættinum af vörugjaldinu skila þeir peningar sér margfalt í minni kostnaði af völdum umferðarslysa.

Ég vil láta koma fram að verð á loftpúðum í bifreiðar er um 50--100 þús. kr., getur jafnvel farið hærra, og vörugjald er um 30--70% eftir bílverðinu. Það má augljóst vera að sá sem teygir sig langt í kaupum á nýjum bíl veigrar sér við að bæta þessu öryggistæki við þó að hann gjarnan vildi og því mundi afsláttur af vörugjaldi eða niðurfelling þess svo sannarlega koma hér til liðs.

Ef við horfum til tekjumissis ríkissjóðs af niðurfellingu vörugjaldsins má láta koma hér fram að aðeins yrði um örfáar milljónir að ræða hjá ríkinu. En ég undirstrika það sem áður kom fram í máli mínu að sá tekjumissir mun svo sannarlega skila sér aftur á öðrum sviðum. Sparnaðurinn augljós, einstaklingar verða síður fyrir slysum, dauðaslysum er afstýrt og með þeim sorgum og sársauka sem því fylgir. Augljós er að sjálfsögðu sparnaðurinn í sjúkrakostnaði og heilbrigðiskerfi.

Um framkvæmd afsláttarins eða niðurfellingu gjaldsins er ekki ástæða til að fara mörgum orðum en til greina kemur að hafa afsláttinn ákveðna krónutölu til þess að einfalda framkvæmdina. Einnig má nefna að Umferðarráð hefur bent á að jafna mætti vörugjald en með jöfnun vörugjalds næðist að ná niður kostnaðinum við loftpúðana hvað vörugjald af þeim áhrærir.

Ég tel að það dæmi sem hér er rakið í þáltill. um niðurfellingu af vörugjaldi af loftpúðum í bílum sýni að ríkisvaldið getur haft veruleg áhrif í stefnumörkun hvað bifreiðaeigendur og hagsmuni þeirra varðar. Ég tel ástæðu til að nota tækifærið til þess að hvetja ríkisvaldið til þess að koma á stefnu í bifreiðamálum og málefnum bifreiðaeigenda en þar gætu öryggissjónarmið svo sannarlega komið fram í verðlagningu ríkisvaldsins eins og kemur fram í þessari tillögu. Einnig getur ríkisvaldið beitt sér fyrir því að umhverfismál séu tekin til skoðunar í stefnumótuninni, eins líka að hafa áhrif á bílakaup manna eftir því við hvaða samgönguaðstæður þeir búa og eins líka um neyslustýringu og annað í þeim hætti.

Rétt er að komi fram að tekjur ríkisins eru um 20 milljarðar af tengdum viðskiptum með bíla eða notkun bíla. Ríkisvaldið þarf að koma þarna fram með því m.a. að hefja starfið á því að fella niður vörugjaldið af bifreiðum eins og hér er mælt með í þeirri þáltill. sem hér er lögð fram.