Bókaútgáfa

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 17:27:02 (2695)

1996-02-01 17:27:02# 120. lþ. 82.10 fundur 220. mál: #A bókaútgáfa# þál., Flm. ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[17:27]

Flm. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir þau orð sem komu fram hjá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur um það mikla áreiti sem að okkur steðjar. En það má enginn skilja orð mín svo að ég vilji vinna gegn sjónvarpi, kvikmyndum eða öðru slíku enda veit ég að það fólst ekki í orðum þingmannsins. Að sjálfsögðu bjóðum við velkomin öll þessi menningaráhrif innan þeirra marka sem við teljum menningu okkar hagkvæmast en um leið viljum við líka halda sérkennum okkar og íslenskri tungu sem er undirstaða menningar okkar.

Ég hlakka til samstarfs við þingmenn úr hvaða flokki sem þeir kunna að koma um góðan framgang þessa máls en vil að lokum geta þess að ekki hefur verið tæpt á einum lið í prentuðu máli og sem er mikið hagsmunamál og mikilsverður fyrir íslenska tungu, en það er staða íslenskra tímarita og íslenskra dagblaða. Þó að þessi tillaga snúi að bókinni, mun ég beita mér fyrir því að íslensk tímarit og íslensk dagblöð verði ekki út undan í þeirri sókn sem ég tel vera nauðsynlega fyrir hið prentaða mál og útgáfu á Íslandi.