Bætt þjónusta hins opinbera

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 17:33:40 (2697)

1996-02-01 17:33:40# 120. lþ. 82.11 fundur 227. mál: #A bætt þjónusta hins opinbera# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[17:33]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þá þáltill. sem hann hefur lagt fram. Hér er um að ræða mjög veigamikið mál. Við höfum furðað okkur á því hvernig stendur á því að við búum hér á landi við háa þjóðarframleiðslu, skammarlega lág laun, ekki mikla skatta á atvinnulífinu að því okkur er sagt og mjög lélegan hagnað fyrirtækja. Það er einhver mótsögn í þessu. Það er eitthvað að þegar þetta er borið saman við t.d. Danmörku. Þangað flyst fólk á flótta undan lífskjörum hér á landi. Það er eitthvað að. Ég held nefnilega að það sem hv. þm. bendir á í þessari þáltill. sé kjarni málsins. Það er þjónusta opinberra aðila við fyrirtækin í landinu.

Vel má vera að fleiri viðjar séu lagðar á íslenskt atvinnulíf, þær eru eflaust fleiri, en þetta er örugglega ein af þeim viðjum sem veldur því að við búum hér á landi við svo lág laun og léleg lífskjör, allt of lág miðað við það hvað þjóðin skaffar.