Svör við fyrirspurnum

Mánudaginn 05. febrúar 1996, kl. 15:07:47 (2701)

1996-02-05 15:07:47# 120. lþ. 83.91 fundur 172#B svör við fyrirspurnum# (aths. um störf þingsins), SvG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur


[15:07]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Í skjali því sem dreift er til þingmanna um stöðu þingmála kemur fram að elsta fyrirspurnin sem þar liggur án þess að henni hafi verið svarað er fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. um símahleranir. Sú fyrirspurn hefur legið fyrir síðan í nóvembermánuði og það er beðið um skriflegt svar. Samkvæmt þingsköpum, sem eru landslög eins og kunnugt er, er gert ráð fyrir því að ráðuneytið svari spurningum af þessu tagi og hafi til þess í mesta lagi ef ég man rétt tíu daga.

Ég vil nota þetta tækifæri, hæstv. forseti, til þess að fara fram á það við forseta að hann reki á eftir því að hæstv. dómsmrh. svari þessari fyrirspurn hið fyrsta þannig að unnt sé að gera viðeigandi ráðstafanir og málið yrði þá tekið fyrir með öðrum hætti ef hæstv. dómsmrh. ætlar að þrjóskast við að svara þessari einföldu fyrirspurn mikið lengur.