Sérstakur ákærandi í efnahagsbrotum

Mánudaginn 05. febrúar 1996, kl. 15:39:41 (2706)

1996-02-05 15:39:41# 120. lþ. 83.12 fundur 180. mál: #A sérstakur ákærandi í efnahagsbrotum# þál., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur


[15:39]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir það sem fram kom hjá hæstv. dómsmrh. Ræða hans segir mér að við flm. þessa frv. og hæstv. dómsmrh. erum ekki svo langt frá hvert öðru, þó við viljum kannski fara ólíkar leiðir að sama markmiði. Ráðherrann talar um að styrkja réttargæslukerfið og að það þurfi meira sérhæft starfslið og hæstv. ráðherra bendir einmitt á það sem er meginatriðið í okkar tillögu, þ.e. að færa saman rannsókn og ákæru mála. Við flm. erum vissulega opin fyrir öllum leiðum sem færa okkur að þessu markmiði. Það er ekkert heilagt atriði í okkar huga að stofna til sérstaks embættis í þessu skyni svo fremi að við náum markmiðinu. En ég tel að það þurfi ekki að vera svo dýrt að fara þessa leið sem við leggjum til og tel að hún mætti fyllilega koma til skoðunar eins og sú leið sem hæstv. dómsmrh. talar fyrir.

Hæstv. ráðherra talar um að það sé í undirbúningi að breyta skipulagi löggæslunnar að því er varðar rannsókn mála sem ég tel líka mikilvægt en ráðherrann skýrði það ekki nægjanlega að mínu viti. Ég spyr hvort hann geti greint þinginu eitthvað nánar frá því. Hæstv. ráðherra talar um að breyta líka ákæruvaldinu og ég spyr ráðherrann hvort hann geti greint þinginu frá því nokkuð nánar en hann hefur gert hvað hann hefur hugsað sér í því efni. Það eru margar leiðir færar í því efni, sú sem við bendum á, einnig að færa ákæruvaldið til skattrannsóknarstjóra og fleiri atriði þannig að ég spyr hæstv. ráðherra að því. Ég þakka honum fyrir það sem fram kom í hans máli. Við erum fyllilega sammála því að aukin tíðni efnahagsbrota og bæði tækni og margmiðlun sem fer vaxandi kallar á að við endurskoðum skipulag þessara mála.