Sérstakur ákærandi í efnahagsbrotum

Mánudaginn 05. febrúar 1996, kl. 15:53:48 (2711)

1996-02-05 15:53:48# 120. lþ. 83.12 fundur 180. mál: #A sérstakur ákærandi í efnahagsbrotum# þál., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur


[15:53]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég veit að hv. þingmenn skilja að ég get ekki gert hér nákvæma grein fyrir tillögum sem ekki eru alveg fullgerðar enn sem komið er. Það er ljóst að sú vinna sem hefur farið fram miðar að ákveðnum skipulagsbreytingum. Meðal annars þeim að færa í ríkari mæli saman rannsókn mála og ákæru. Ég tel að það sé galli í okkar kerfi í dag hversu mál af þessu tagi þurfa að fara í gegnum mörg þrep. Þau geta þurft að fara í gegnum frumskoðun hjá lögreglustjóraembætti, jafnvel lögfræðilega athugun, síðan í gegnum lögreglu- og lögfræðiathugun hjá Rannsóknarlögreglu og aftur í lögfræðilega athugun hjá ákæruvaldi. Ég tel að hér sé um allt of langan feril að ræða og hægt sé að einfalda þessa framkvæmd með því að færa rannsóknina og ákæruvaldið saman í miklu ríkari mæli en verið hefur, m.a. í brotum af því tagi sem hér er verið að fjalla um.

Það má vel vera að ég hafi misskilið efni þáltill. og hún fjalli ekki um að koma á sérstöku embætti. Ég las bara texta tillögunnar áðan þar sem segir: ,,Alþingi ályktar að fela dómsmrh. að undirbúa frv. til laga um embætti sérstaks ákæranda í efnahagsbrotum``. Ég skildi það á þann veg að þar væri verið að fjalla um sérstakt embætti. Því fer auðvitað fjarri að ég ætli að leggja aðra merkingu í það en flutningsmenn gera sjálfir og ég er mjög ánægður með að það er ekki endilega hugmynd manna að búa til sérstaka stofnun. Ég held að það sé skipulag vinnunnar og sú sérhæfða þekking sem er fyrir hendi sem muni skila okkur mestum árangri í þessum efnum. Ég býst við, ef draga má ályktun af þessum umræðum, að það sé í raun ekki mjög mikill skoðanaágreiningur um það hvernig taka á á þessum málum.