Tímareikningur á Íslandi

Mánudaginn 05. febrúar 1996, kl. 16:09:21 (2714)

1996-02-05 16:09:21# 120. lþ. 83.13 fundur 197. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur


[16:09]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Hér er ekkert smámál á ferðinni, frv. til laga um tímareikning á Íslandi, og hef ég fjölmargt við það að athuga. Þeir koma hér inn á, hv. þm., í greinargerð sinni að Evrópusambandið hafi gefið út tilskipun um samræmdan sumartíma. Eftir því sem ég kemst næst þá er ekki um það að ræða að Evrópusambandið sé að gefa út tilskipun um það að allir eigi að vera með sama tíma heldur er átt við að þeir sem eru á annað borð að hreyfa sína klukku skuli gera það á sama tíma.

Í frv. eru rök flutningsmanna fyrir því að taka upp þennan nýja sumartíma m.a. í fyrsta lagi að tímamunurinn milli Íslands og annarra landa í Vestur-Evrópu myndi styttast úr tveimur stundum í eina stund yfir sumartímann og yrði það til hagræðis fyrir þá sem stunda viðskipti við Evrópulöndin. Í öðru lagi þyrfti ekki lengur að breyta áætlunum Flugleiða þegar tímabreytingar verða. Í þriðja lagi þyrftu flugfarþegar á leið til Evrópu ekki að vakna eins snemma fyrir flug og í fjórða lagi myndi almenningur njóta sólar lengur að sumrinu til eftir vinnutíma á daginn. Ég mun sérstaklega koma að þessum lið á eftir.

Rökin gegn nýjum sumartíma eru m.a. að tímabreytingin myndi raska verulega svefnvenjum manna, einkanlega ungbarna. Á þeim árum sem sérstakur sumartími var í gildi hérlendis var þetta algengasta umkvörtunarefnið þá klukku hafði verið breytt. Lesendadálkar dagblaðanna voru yfirfullir af athugasemdum frá almenningi vegna þessa hringlanda með klukkuna. Og mun ég koma að því síðar og tengist það þeim lið þeirra hv. flm. um það að almenningur muni njóta sólar lengur að sumri eftir vinnutíma á daginn.

En fleiri eru rökin. Stilla þyrfti allar klukkur á landinu tvisvar á ári og er það í mörgum tilvikum mikil fyrirhöfn. Gleymska og mistök sem óhjákvæmilega verða geta haft óþægilegar afleiðingar. Meðan reglur um sumartíma voru í gildi var algengt að menn kæmu of seint eða of snemma í vinnu, á fundi eða samkomur daginn eftir tímabreytinguna.

Í þriðja lagi. Þeir sem eiga viðskipti vestur um haf myndu missa eina stund af sameiginlegum skrifstofutíma og er hann þó skammur fyrir. Venjulega meta menn skammdegið eftir því hvenær birtir á morgnana. Ef klukkunni yrði flýtt um klukkustund fram undir lok október þýddi það beinlínis að menn fyndu fyrir skammdeginu tæplega þremur vikum fyrr en þeir gera nú. Og má t.d. benda á það að ef 30. október í Reykjavík er tekinn sem dæmi, birtir kl. 8.10 en eftir breytingu yrði það kl. 9.10 sem þýddi að birting væri þá sú sama og 21. nóvember. Sama má segja um Ísafjörð. Þar er birting 30. október kl. 8.22 en eftir breytinguna kl. 9.22. Birting 30. október yrði því þá sú sama og nú er 19. nóvember.

Í fjórða lagi. Breyta þyrfti veðurfregnatímum í útvarpi tvisvar á ári því að Veðurstofan verður að gera athuganir sínar á föstum tímum eftir miðtíma Greenwich.

Í fimmta lagi. Breyta þyrfti mjaltatímum í sveitum og heyvinnutíma myndi seinka.

Í sjötta lagi. Þeir sem nota flóðtöflur, töflur um sólargang og hliðstæðar töflur í almanaökum yrðu að muna eftir að leiðrétta tölur á réttan veg meðan sumartíminn er í gildi því að töflurnar verða að fylgja sama tíma allt árið. Að víkja frá þeirri hefð mundi aðeins auka hættu á misskilningi. Mistök í túlkun slíkra talna geta haft alvarlegar afleiðingar.

Í sjöunda lagi. Þeir sem sinna rannsóknum, samgöngum og fjarskiptum þar sem tímaviðmiðar GMT eða Greenwich Mean Time gilda mundu ekki lengur njóta þeirra forréttinda og þæginda að búa við þann tíma í daglegu lífi allt árið. Um leið eykst hætta á mistökum við tímaskráningar.

Í áttunda lagi. Tímareikningur að sumrinu yrði víðs fjarri því upprunalega markmiði að hádegi sé kl. tólf og miðnætti kl. 24. Orðin hádegi og miðnætti yrðu nánast óræð ef ekki fylgdu nánari skýringar. Sól yrði í hádegisstað frá kl. 13.38 til kl. 14.53, allt eftir landshlutum og árstímum og miðnætti eftir sólinni yrði á sama hátt frá tímabilinu frá kl. 01.38 til 02.53.

Sú helsta gagnrýni sem ég vil flytja í sambandi við röksemdafærslu frv. er að í greinargerðinni segir: ,,Rökin sem færð hafa verið gegn sumartímanum hafa fyrst og fremst falist í að draga fram kostnaðinn og fyrirhöfnina við að breyta klukkunni tvisvar á ári.`` Þetta er alrangt. Fyrirhöfnin við að stilla klukku þótt ærin sé er ekki þyngsta röksemdin í máli þessu. Höfuðröksemd flm. er sú að með nýjum sumartíma fáist ein klukkustund í viðbót til samskipta við Evrópulönd á sameiginlegum skrifstofutíma. Ef klukkustundar viðbót við sameiginlegan skrifstofutíma er svo afgerandi í viðskiptum, hvers eiga þeir þá að gjalda sem stunda viðskipti við Bandaríkin og myndu missa klukkustund af þeim stutta tíma sem þeim stendur til boða? Hvers vegna eru þeir ekki nefndir á nafn? Satt best að segja er ástæða til að efast um að sameiginlegur skrifstofutími skipti jafnmiklu máli í viðskiptum og flm. vilja vera láta. Ekki virðist tímamunurinn hafa staðið Japönum fyrir þrifum þegar þeir voru að hasla sér völl á mörkuðum í Evrópu og Bandaríkjunum.

[16:15]

Tvær af fjórum röksemdum flutningsmanna vísa til hagsmuna Flugleiða. Rétt er að benda á að það er ekkert náttúrulögmál að flugvélar Flugleiða þurfi að leggja af stað frá Íslandi á föstum tímum miðað við klukkuna einhvers staðar á meginlandi Evrópu. Ef svo væri hefði brottfarartíma flugvéla frá Íslandi átt að seinka í hvert skipti sem Flugleiðir hafa fengið hraðfleygari flugvélar. Sú hefur ekki orðið raunin nema síður sé. Ef það er vandamál hve farþegar þurfa að fara snemma á fætur til að ná morgunflugi eru Flugleiðir einfærir um að leysa það með því að breyta flugáætlunum sínum. Til þess þarf ekki lagasetningu sem skikkar alla landsmenn til að breyta klukkum sínum tvisvar á ári.

Tal flutningsmanna um sumarstemningu eins og hún gerist í nágrannalöndum okkar í Evrópu, heilbrigðari lifnaðarhætti, hvetjandi áhrif á viðskiptalíf, götulíf og allt mannlíf á Íslandi er nánast hjákátlegt. Það er eins og flytjendur frumvarpsins haldi að það að breyta klukkunni jafngildi því að flytja landið á suðlægari breiddarstig. Bent hefur verið á að í stað þess að færa klukkuna megi breyta vinnutíma á sumrin. Þetta telja flutningsmenn illfæra leið. Það kosti í flestum tilvikum of mikla röskun að breyta vinnutíma einstaklinga, svo ekki sé talað um heilla fyrirtækja. Þessi fullyrðing er illskiljanleg í ljósi þess að margar stofnanir hafa þegar þennan háttinn á og breyta skrifstofutímanum á sumrin. Ef þetta yrði gert að almennri reglu fengist auk þess betra samræmi við skólatíma og opnunartíma dagheimila og leikskóla. Flutningsmenn telja það einkennilegt að Íslendingar skuli búa við þá sérstöðu að hafa ekki sumartíma hliðstætt því sem gerist í nágrannalöndunum. Hefur þó margsinnis verið bent á hvaða rök liggja að baki sumartímanum erlendis. Sumartíminn var upphaflega innleiddur til þess að spara orku á ófriðartímum og orkusparnaðarsjónarmið vegur enn þungt þegar kostir sumartíma eru metnir erlendis. Hér á landi er þetta ekki atriði sem taka þarf tillit til. Því veldur bæði hnattstaða landsins og orkubúskapur. Á sumrin er bjart mestan hluta vökutímans og á veturna dimmt hvort sem klukkunni er hagrætt eða ekki. Við spörum ekki heldur eldsneyti sem neinu nemur með því að færa klukkuna. Sunnar í löndum eru aðstæður gerólíkar að þessu leyti.

Óþægindin við að flytja klukkuna tvisvar á ári eru ekki léttvæg. Sífelldar kvartanir vegna hringlsins með klukkuna leiddu til þess að núverandi skipan mála var tekin upp árið 1968. Þeir sem komnir eru yfir miðjan aldur minnast þess áreiðanlega hve erfitt var að vakna klukkutíma fyrr á morgnana, venja börnin á nýjan svefntíma, muna eftir að breyta klukkunni o.s.frv. Lesendadálkar dagblaðanna voru fullir af kvörtunum tvisvar á ári vegna þess. Eftir breytinguna heyrðust engar kvartanir í áratug, ekki fyrr en á allra síðustu árum þegar farið var að fyrnast yfir efnisatriði málsins og komin er til sögunnar ný kynslóð sem enga reynslu hefur af hringlinu með klukkuna.

Erlendis finna menn auðvitað líka fyrir þeim óþægindum sem fylgja því að breyta klukkunni tvisvar á ári. Þetta má sanna með lítilli gamansögu í hinu útbreidda tímariti New Scientist. Þar birtist fyrir nokkru forustugrein þar sem vakin var athygli á því að Japanar og Íslendingar yrðu allra manna elstir. Í greininni sagði að á ritstjórn blaðsins hefðu menn verið að velta því fyrir sér hvað gæti verið sameiginlegt með þessum tveimur þjóðum. Á endanum höfðu menn komið auga á lausnina, þessar tvær þjóðir væru ekkert að hringla með klukkuna. Reyndar eru Íslendingar og Japanar ekki þeir einu sem kjósa að hafa klukkuna óbreytta allt árið. Mikill meiri hluti sjálfstæðra ríkja heims hefur þennan háttinn á. Stilling klukkunnar er samkomulagsatriði og verður alltaf málamiðlun milli ólíkra sjónarmiða eins og þegar núverandi skipan var tekin upp og sumartíminn gamli lögleiddur allt árið. Því fylgdu vissir ókostir. Sá helsti var seinna birti á morgnana, einkum vestast á landinu og var það mest áberandi í skammdeginu á Vestfjörðum. Þessir ókostir yrðu enn greinilegri ef tekinn væri upp tvöfaldur sumartími eins og nú er lagt til.

Ég gat um það hér áðan að tímabreytingin mundi raska svefnvenjum manna. Hér hef ég í höndum greinargerð frá Júlíusi K. Björnssyni sálfræðingi, sem ég vildi aðeins fá að vitna í, með leyfi forseta:

,,Öll umræðan hefur algerlega litið fram hjá þeirri staðreynd að tímasetningar og sú reglubundna breyting birtu og myrkurs sem á sér stað á hverjum sólarhring er einhver mikilvægasti áhrifavaldurinn í lífi okkar allra. Allar svokallaðar lífklukkur líkamans eru háðar þessum breytingum og þær ráða því hvenær við sofum og vökum, hvenær við erum þreytt og hvenær óþreytt og stjórna getu okkar og hæfni til þess að leysa af hendi þau verkefni sem við fáumst við. Allir sem einhvern tíma hafa unnið vaktavinnu eða þurft að sinna erfiðum og oft krefjandi verkum utan venjulegs vinnutíma þekkja það að slíkt er oft á tíðum mjög erfitt og þreytandi, ekki síst ef um síbreytilegan vinnutíma er að ræða.

Dægursveiflur líkamans eru margs konar, en sú sem hefur einna mest verið rannsökuð er hin reglubundna breyting á hitastigi hans. Þannig er hitastig líkamans hæst um miðjan dag en lægst seinni hluta nætur. Þessar breytingar eru hjá flestum mjög reglulegar og eiga stóran þátt í að ákvarða hvenær menn eru syfjaðir og/eða þreyttir og síðast en ekki síst ákvarða þær hvenær geta þeirra er mest og hæfni. Þessi dægursveifla, ásamt öðrum, stjórnast að miklu leyti af reglulegum breytingum á birtu, skynjaðar í gegnum augun, sem verður til þess að efnið melatónín framleiðist í heilanum í svokölluðum heilaköngli, en þetta efni eða hormón er einn aðaláhrifavaldurinn um það hvenær menn vaka og sofa.

Þegar tímanum er flýtt, eins og þegar er gert hér á land og misræmi skapast á milli klukkunnar og þess hvenær dagur rennur, veldur það því að margir hafa tilhneigingu til þess að vaka lengur að kvöldi og eiga erfiðara með að vakna að morgni. Kannanir hafa verið gerðar á svefnvenjum Íslendinga sem sýna að Íslendingar fara að jafnaði einni klukkustund seinna að sofa en aðrar Evrópuþjóðir og vakna að jafnaði einni klukkustund síðar að morgni en þær. Lífið á Íslandi er því einni klukkustund seinna á ferðinni miðað við klukkuna en annars staðar. Ekki er hægt að kenna neinu sérstöku um nema ef vera skyldi því að hér er klukkan núna rangt stillt miðað við sólargang og hnattstöðu landsins. Þetta misræmi vill Vilhjálmur Egilsson nú auka enn frekar. Kannað hefur verið hér á Íslandi hversu margir eiga í svefnerfiðleikum og hefur komið í ljós að 20--30% Íslendinga eiga erfitt með að sofna á kvöldin og stór hópur á í erfiðleikum með að vakna á morgnana, sérstaklega ungt skólafólk.

Framangreind vandamál munu næstum örugglega aukast enn frekar ef misræmið á milli klukku og sólargangs verður enn frekar aukið. Miklu skynsamlegra væri að fara öfuga leið og seinka klukkunni hér þannig að sem best samræmi yrði á milli hennar og sólargangsins.``

Hér lýkur tilvitnun í skrif Júlíusar Björnssonar sálfræðings.

Ég vil að lokum, með leyfi forseta, flytja ljóð sem að mér var rétt og er eftir Piet Hein í þýðingu Helga Hálfdanarsonar. Það heitir Hið rétta land:

  • Ef klukkan er eitt hjá okkur
  • þá er hún á Spáni tvö
  • en átta á Indlandsskaga
  • og austur hjá Volgu sjö.
  • Hve gæfan er okkur örlát
  • sem ekki verðskuldum neitt,
  • að kjósa` okkur land með þeim kostum
  • að klukkan er eitt klukkan eitt.