Tímareikningur á Íslandi

Mánudaginn 05. febrúar 1996, kl. 16:24:55 (2715)

1996-02-05 16:24:55# 120. lþ. 83.13 fundur 197. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., Flm. VE
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur


[16:24]

Flm. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvernig mér á eiginlega að líða eftir að vera búinn að hlusta á hina lærðu ræðu hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar, sem hefur dregið upp greinar eftir sálfræðinga, kveðskap sem er þýddur af Helga Hálfdanarsyni og fjallar greinilega um málið eftir vísindalega úttekt á því. Ég verð að segja að ég aumur og vesæll flutningsmaður þessa máls vildi aðeins hafa það að leiðarljósi að bæta mannlífið á Íslandi á sumrin, gera okkur þægilegra að lifa hér á þessari norðlægu breiddargráðu og gera okkur a.m.k. kleift að njóta okkar stutta sumars betur en nú, jafnvel þótt ekki sé hægt að flytja landið suður um einhverjar breiddargráður.

Hv. þm. kom hér með ýmsar mótbárur. Margar þeirra snerust fyrst og fremst um það hvað þetta væri erfitt og flókið og hefði slæm áhrif á líðan fólks. Þá vaknar að sjálfsögðu sú spurning: Hvernig skyldi standa á því að aðrar þjóðir í kringum okkar hafa þetta skipulag? Skyldi engin þessara þjóða eiga sér góðan sálfræðing eða þá skáld eins og þá sem hv. þm. vitnar í? Eða þingmenn eins og hv. þm. Guðmund Hallvarðsson sem forðar þjóðunum frá þeirri miklu ógæfu að taka upp sumartíma.

Ég held að ef við lítum á þetta mál, þá snýst ákvörðun á því hvernig menn haga klukkunni, tímareikningurinn, fyrst og fremst um það hvernig fólk vill haga sínum vinnutíma og sínum frítíma, hvenær það vill njóta birtu og hvenær ekki. Við höfum, eins og hv. þm. gat um, séð það að mörg fyrirtæki opna fyrr á sumrin til þess að geta lokið vinnutímanum fyrr. Það er hins vegar ekki nægilega rúmt svigrúm í þessu efni og ég nefni sem dæmi fyrirtæki sem vilja byrja dagvinnu kl. 7. Þar lenda fyrirtæki í miklum vandræðum vegna þess að barnaheimili opna t.d. ekki fyrr en kl. 8. Vilji fólk stilla sinn eigin vinnutíma af miðað við það að geta notið sumarblíðunnar er það hægara sagt en gert þar sem þjóðfélagið er meira og minna samstillt. Það er ekki ákvörðun sem menn geta með þægilegu móti tekið hver fyrir sig.

Þess vegna vil ég, hæstv. forseti, að þetta frv. nái fram að ganga og vona að hv. þm. geti vaknað sæll og sofið rólegur þegar búið er að taka upp sumartímann, notið góðrar ljóðlistar og þurfi ekki að fara til sálfræðings.