Fæðingarorlof

Mánudaginn 05. febrúar 1996, kl. 16:47:08 (2722)

1996-02-05 16:47:08# 120. lþ. 83.14 fundur 226. mál: #A fæðingarorlof# þál., Flm. GGuðbj (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur


[16:47]

Flm. (Guðný Guðbjörnsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um fæðingarorlof. Flm. eru auk mín aðrar þingkonur Kvennalistans, Kristín Ástgeirsdóttir og Kristín Halldórsdóttir. Tillagan hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að láta semja frumvarp til laga um fæðingarorlof sem byggist á eftirfarandi markmiðum:

að tryggja feðrum sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í þrjá mánuði,

að tryggja ungbörnum umönnun beggja foreldra á fyrsta æviárinu með því að lengja fæðingarorlof í tólf mánuði í áföngum,

að gera foreldrum kleift að taka fæðingarorlofið á lengri tíma með hlutagreiðslum að eigin vali,

að tryggja öllum mæðrum hvíldartíma fyrir fæðingu,

að tryggja feðrum sérstakt fæðingarorlof í tvær vikur eftir fæðingu barns, sem ekki skerðir fæðingarorlof móður,

að fæðingarorlof verði lengra eftir fjölburafæðingu,

að fæðingarorlof ættleiðandi foreldra, uppeldis- eða fósturforeldra lengist í áföngum til jafns við fæðingarorlof annarra foreldra,

að endurskoða fjármögnun fæðingarorlofs þannig að stofnaður verði sérstakur fæðingarorlofssjóður sem allir atvinnurekendur, jafnt í opinberum rekstri sem einkarekstri, greiði til ákveðið hlutfall af launum allra launþega, svokallað fæðingarorlofsgjald.``

Loks er mælt með því að þessi nefnd stefni að því markmiði að bæta kjör foreldra í fæðingarorlofi þannig að launþegar haldi launum sínum úr fæðingarorlofssjóði. Að auki greiði Tryggingastofnun ríkisins áfram fæðingarstyrk vegna þess kostnaðarauka sem fæðing barns hefur í för með sér. Þetta eigi við um fæðingar allra barna.

Í greinargerð er rakið hvernig löggjöf um fæðingarorlof hefur þróast hér á landi og hvernig hún er í samanburði við löggjöfina á Norðurlöndum. Í greinargerðinni segir m.a.:

Núverandi löggjöf um fæðingarorlof er um margt ófullnægjandi enda hefur endurskoðun á henni staðið til á undanförnum árum. Árið 1974 var samþykkt frumvarp sem tryggði konum sem ,,forfölluðust frá vinnu`` atvinnuleysisbætur í 90 daga. Fram að þeim tíma höfðu aðrar konur en þær sem voru opinberir starfsmenn aðeins átt rétt á ákveðinni lágmarksupphæð í fæðingarstyrk við fæðingu barns. Árið 1980 var umsjón greiðslna í fæðingarorlofi flutt frá Atvinnuleysistryggingasjóði til lífeyrisdeildar Tryggingastofnunar. Sama ár var öllum konum tryggður lágmarksréttur til fæðingarstyrks. Árið 1987 var greiðslum skipt upp í fæðingarstyrk annars vegar, sem er óháður atvinnuþátttöku, og fæðingardagpeninga hins vegar, sem miðast við vinnuframlag. Jafnframt voru greiðslur í fæðingarorlofi lengdar fyrst í fjóra mánuði en í áföngum upp í sex mánuði árið 1990. Konur, sem eru opinberir starfsmenn eða félagar í Sambandi íslenskra bankamanna, fá greidd laun frá vinnuveitanda í fæðingarorlofi í stað greiðslna frá Tryggingastofnun. Í stuttu máli má segja að hér á landi sé þrenns konar kerfi við lýði. Það er háð atvinnuþátttöku og vinnuveitanda hver réttarstaðan er (lög um fæðingarorlof 57/1987; lög um almannatryggingar 117/1993).

Haustið 1989 var skipuð nefnd sem átti að fjalla um breytingar á lögum um fæðingarorlof. Sú nefnd samdi frumvarp sem aldrei var lagt fram. Þar var lagt til að greiðslur í fæðingarorlofi yrðu ákveðið hlutfall af tekjum, eða 80%. Opinberir starfsmenn voru á móti frumvarpinu, m.a. vegna þess að þeir töldu að það hefði leitt til skerðingar á kjörum þeirra og því verið skref aftur á bak.

Á árunum 1983--1987 lögðu kvennalistakonur í þrígang fram frumvarp um að lengja fæðingarorlof úr þremur mánuðum í sex sem ekki fékkst samþykkt. Árið 1987 var hins vegar samþykkt frumvarp ríkisstjórnarinnar um lengingu fæðingarorlofs í sex mánuði í áföngum. Á árunum 1990--1994 lögðu kvennalistakonur þrívegis fram frumvarp um lengingu fæðingarorlofs í níu mánuði. Það frv. hefur ekki hlotið framgöngu en flest eða öll markmið þess eru tengd inn í þessa þáltill. nú.

Ef litið er til Norðurlandanna er fæðingarorlof styst á Íslandi og í Danmörku eða sex mánuðir, sjö mánuðir í Noregi, níu mánuðir í Finnlandi og tólf mánuðir í Svíþjóð. Greiðslufyrirkomulagið er einnig með ólíkum hætti. Í Danmörku fá launþegar full laun, í Noregi og Finnlandi er greidd sama upphæð og ef um sjúkradagpeninga væri að ræða og í Svíþjóð eru greidd 90% af launum. Á Íslandi eru greiðslur vegna fæðingarorlofs háðar atvinnuþátttöku og vinnuveitendum. Þetta yfirlit sýnir að annars vegar er litið á fæðingarorlof sem hluta af bótagreiðslum almannatrygginga en hins vegar er litið á það sem samningsbundinn rétt launþega til að halda launum sínum á meðan á fæðingarorlofi stendur.

Á Íslandi er þessum aðferðum blandað saman, eins og áður var sagt. Öll umræða um að konur eða foreldrar njóti sömu réttinda þarf að taka á því hvort verið er að greiða fólki fyrir að eignast börn óháð atvinnuþátttöku eða hvort atvinnuþátttaka og laun á vinnumarkaði móta réttarstöðuna og greiðslurnar. Konur, sem eru opinberir starfsmenn eða félagar í Sambandi íslenskra bankamanna, fá laun frá vinnuveitanda í fæðingarorlofi en ekki greiðslur frá Tryggingastofnun. Þær konur, sem starfa hjá ríkinu, halda launum sínum óskertum fyrstu þrjá mánuði fæðingarorlofs en fá eftir það grunnlaun. Þær hafa einnig rétt til að lengja fæðingarorlofið með því að vinna hluta úr degi.

Þetta á hins vegar ekki við um feður. Fjármálaráðuneytið túlkar lögin þannig að karlar sem vinna hjá ríkinu eigi ekki rétt á launuðu fæðingarorlofi. Eiginmenn kvenna, sem eru ríkisstarfsmenn, eiga heldur ekki rétt á dagpeningum frá Tryggingastofnun. Þannig hafa ríkisstarfsmenn í raun takmarkaða möguleika til þess að skipta greiðslum í fæðingarorlofi milli foreldra. Kærunefnd jafnréttismála hefur a.m.k. tvisvar fengið kæru vegna þessa og einu sinni hefur mál af þessu tagi farið fyrir Jafnréttisráð. Í áliti kærunefndar Jafnréttisráðs frá því 10. september 1993 segir m.a.: ,,Með framkvæmd almannatryggingalaganna stendur stór hluti feðra ... án nokkurs réttar til greiðslna, taki þeir fæðingarorlof og eru beittir misrétti sem engin efnisleg rök virðast fyrir.`` Í niðurstöðum sínum beinir kærunefndin þeim tilmælum til fjármálaráðuneytisins að það ,,hlutist til um að gerðar verði þær ráðstafanir sem þarf til að þess að viðurkenndur verði og tryggður réttur feðra í þjónustu ríkisins til launa í fæðingarorlofi``.

Ekki hafa enn verið gerðar neinar ráðstafanir til þess að tryggja þessi réttindi feðra. Formlega geta feður fengið greiðslur í fæðingarorlofi í allt að fimm mánuði með leyfi móður, en það skerðir fæðingarorlofsgreiðslur til hennar sem því nemur. Árið 1993 fengu 5.499 konur greiðslur frá Tryggingastofnun í fæðingarorlofi en 17 karlar. Árið 1994 voru konurnar 5.286 en karlarnir 16. Og fyrstu fjóra mánuði þessa árs fengu tveir feður greiðslur frá Tryggingastofnun en 2.656 mæður.

Reynsla annars staðar á Norðurlöndum sýnir að hægt er að hafa áhrif í þessu mikilvæga jafnréttismáli ef lög og reglur eru hönnuð með jafnrétti fyrir augum. Í því sambandi er mikilvægt að hafa í huga þann kynbundna launamun sem enn ríkir. Ef einstaklingar halda ekki launum sínum í fæðingarorlofi má búast við að það foreldrið sem er tekjulægra nýti allt fæðingarorlofið nema það sé bundið við báða foreldra og nýtist ekki til fulls nema báðir foreldrar taki sinn hluta. Fáir sænskir feður fóru t.d. í fæðingarorlof fyrr en lögin urðu þannig að þeirra hluti nýttist ekki nema þeir tækju hann. Reynslan frá Svíþjóð sýnir einnig að feður taka frekar leyfi eftir að barnið er orðið sex mánaða. Þá eru ekki meðtaldir svokallaðir pabbadagar sem eru 1--2 vikur eftir fæðingu í Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Noregi og eru eingöngu ætlaðir feðrum. Á svipaðan hátt taka nú yfir 50% danskra feðra einhvers konar leyfi í tengslum við fæðingu barns.

Flutningsmenn þessarar tillögu leggja áherslu á að við endurskoðun núverandi laga um fæðingarorlof sé nauðsynlegt að taka inn þau atriði sem áðurnefnd frumvörp kvennalistakvenna tóku til. Flutningsmenn leggja einnig mikla áherslu á nauðsyn þess að tryggja mun betur rétt beggja foreldra til töku fæðingarorlofs, m.a. sjálfstæðan rétt feðra til fæðingarorlofs. Það er mat flutningsmanna að á meðan kynbundinn launamunur er eins mikill og raun ber vitni verði slíkt ekki gert með því að heimila feðrum að taka hluta af leyfi móður. Það er nauðsynlegt að tryggja feðrum sjálfstæðan rétt til töku fæðingarorlofs. Eins er nauðsynlegt að breyta fyrirkomulagi á greiðslum í fæðingarorlofi þannig að stefnt verði að því að foreldrar fái full laun í fæðingarorlofi. Hér er lagt til að feður fái tveggja vikna fæðingarorlof eftir fæðingu sem sé óháð fæðingarorlofi móður. Í heild fái feður þriggja mánaða sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs sem einungis þeir geti nýtt.

Raunhæfasta leiðin til að tryggja að foreldrar fái full laun í fæðingarorlofi og sú sem hér er lögð til er að stofna sérstakan fæðingarorlofssjóð sem allir atvinnurekendur greiði í rétt eins og sjúkra- og lífeyrissjóði. Sjóðurinn standi síðan undir greiðslum til foreldra í fæðingarorlofi en ekki viðkomandi atvinnurekandi. Miðað við fæðingartíðni er ekki óraunhæft að miða sjóðsgjöldin við það að hver starfsmaður taki 9--12 mánaða fæðingarorlof einu sinni á starfsævi, þ.e. að ,,meðalhjón`` fái fæðingarorlof fyrir tvö börn. Þá er átt við það að sumir ættu eitt barn og aðrir fleiri. Meðaltalan er þó miðuð við tvö börn á hjón. Þannig mætti tryggja að allir einstaklingar óháð kyni geti tekið fæðingarorlof án launaskerðingar sem foreldrar skipti með sér með ákveðnum takmörkunum. Þetta fyrirkomulag ætti að tryggja jafnan rétt og skyldur beggja foreldra til að taka fæðingarorlof og annast börn sín í frumbernsku og að tekjur fólks breytist ekki verulega til hins verra vegna töku fæðingarorlofs. Þá er lagt til að Tryggingastofnun greiði áfram fæðingarstyrk vegna þess kostnaðarauka sem fæðing barns hefur í för með sér. Þær greiðslur eiga að sjálfssögðu við fæðingar allra barna.

Veruleg umræða um fæðingarorlof á sér nú stað í velflestum OECD-landanna í kjölfar vaxandi atvinnuþátttöku kvenna á öllum sviðum og þeirrar kröfu að foreldrar sitji við sama borð varðandi réttindi og skyldur til fæðingarorlofs. Stórfyrirtæki og atvinnurekendur sýna málinu yfirleitt mikinn áhuga því að mikið er í húfi, ekki síst þegar um sérhæfðan mannafla er að ræða. Það er víðar en hér á landi sem fæðingarorlofskerfið hefur ekki þróast í takt við breytingarnar á samfélaginu. Ekki verður lengur unað við ríkjandi ástand og því er þessi tillaga flutt.

Ég hef nú lokið tilvísun í greinargerðina en ég vil að lokum nefna að við flutningskonur þessarar tillögu fögnum því að hæstv. heilbrrh. hefur skipað nefnd til að endurskoða lögin um fæðingarorlof. Við vonumst til að þau sjónarmið sem koma fram í þessari þáltill. verði höfð að leiðarljósi við endurskoðun nefndarinnar.

Mikilvægur útgangspunktur þessarar þáltill. er sá að við erum mjög meðvitaðar um mikilvægi fyrsta æviársins í þroska barnsins og þau mikilvægu tengsl sem þá skapast milli foreldra og barns. Þessi tengsl verða gjarnan grundvöllur allra tengsla barnsins síðar á ævinni. Þá er það sjónarmið ráðandi í þessari tillögu að ekki eigi að greiða fólki beint fyrir að eignast börn heldur að fólk hafi óbreytt laun á meðan það er í fæðingarorlofi. Þetta fyrirkomulag ætti að hvetja, ef eitthvað er, ungt fólk til að fresta barneignum þar til það er komið á vinnumarkað og hefur skapað sér betri rétt til töku fæðingarorlofs á fullum launum. Það væri vel ef það drægi úr ótímabærum fæðingum ungra stúlkna sem hér eru tíðari en í velfelstum nágrannalanda okkar.

Þá er hér markvisst unnið að því að jafna aðstöðu beggja foreldra og að jafna aðstöðumun þann sem nú er til staðar eftir því hvort unnið er hjá hinu opinbera, bönkum eða annars staðar.

Ég vil að lokum fagna því að BSRB ályktaði nýlega um fæðingarorlof og þar er sérstaklega mælt með, eins og gert er í þessari tillögu, að stofnaður verði sérstakur fæðingarorlofssjóður, að fæðingarorlof verði lengt og sjálfstæðum rétti feðra til töku fæðingarorlofs. Því er það von mín að þau sjónarmið sem hér hafa verið reifuð verði tekin til greina í þeirri nefnd sem hæstv. heilbrrh. hefur nú þegar skipað til að endurskoða lög um fæðingarorlof.