Fæðingarorlof

Mánudaginn 05. febrúar 1996, kl. 17:15:08 (2724)

1996-02-05 17:15:08# 120. lþ. 83.14 fundur 226. mál: #A fæðingarorlof# þál., KH
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur


[17:15]

Kristín Halldórsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég verð nú að byrja á að lýsa vonbrigðum mínum með fálæti hv. þm. Ég óttast að það sé fálæti um að kenna hve fáir eru viðstaddir. Kannski er það þessi mikla nútímatækni sem veldur þessu fámenni því að nú höfum við tækifæri til þess að fylgjast með umræðum frá skrifstofum okkar. En það hefur þann ókost í för með sér að þá geta þeir sem vilja beina máli sínu til þingmanna ekki horft beint framan í þá og hafa heldur ekki hugmynd um hvort þeir eru þar eða ekki. Við erum að ræða mjög merkilegt mál og það er afleitt að ekki skuli vera fleiri til þess að tjá sig um það.

Það er kannski ekki ástæða til þess svo sem að bæta miklu við ítarlega og upplýsandi framsögn hv. 1. flm. en þó langar mig að fara um þetta mál örfáum orðum. Ég vil í upphafi leggja áherslu á hvað hér er um mikilvægt mál að ræða, mál sem verðskuldar góða og vandaða umfjöllun eins og auðvitað öll mál sem koma fyrir hv. Alþingi. En að mínu mati þetta kannski umfram flest önnur. Við erum að tala um hvernig við viljum tryggja börnum okkar sem besta umönnun fyrstu ævimánuði þeirra, einmitt þann tíma sem getur skipt sköpum fyrir allt þeirra líf. Sá margtuggði málsháttur að lengi býr að fyrstu gerð á svo sannarlega við í þessu tilefni og kannski hvergi betur. Kvennalistinn hefur allt frá upphafi lagt mikla áherslu á úrbætur í þessu efni eins og fram kemur í greinargerð með tillögunni og hv. 1. flm. lýsti. Fyrsta frv. Kvennalistans á fyrsta þinginu sem við sátum var einmitt um lengingu fæðingarorlofs. Það var flutt ítrekað allt það kjörtímabil og átti vissulega sinn þátt í þeim breytingum sem gerðar voru fyrir kosningarnar 1987 eins og rakið er í greinargerðinni.

Hér eru svo enn lagðar fram hugmyndir og tillögur um breytingar á lögum um fæðingarorlof sem vonandi verða nýttar. Þær eru um margt nýstárlegar og þurfa sjálfsagt sinn tíma til að öðlast skilning og viðurkenningu. Sem fyrr er það vitaskuld velferð barnsins sem mestu skiptir en jafnframt er rétt að ítreka og vekja enn og aftur athygli á þeirri áherslu sem hér er lögð á þátt feðra í fæðingu og umönnun barns á fyrstu ævimánuðum þess. Það er mál sem er verulega brýnt að taka á og þolir í rauninni ekki bið. Ég vil af þessu tilefni fagna fram kominni tillögu þeirra hv. þm. Ögmundar Jónassonar og Steingríms J. Sigfússonar sem verður væntanlega mælt fyrir á eftir. Það er nú svo gleðilega komið að feður hafa í sívaxandi mæli áhuga á að taka þátt í því undri og ævintýri sem það er að eignast nýtt líf og annast það. Viðhorfin hafa gjörbreyst í þessu efni og margir ungir foreldrar hafa raunverulegan áhuga á því að feður komi meira við sögu. En þeim er svo sannarlega ekki gert auðvelt fyrir. Það er nánast ekki mögulegt fyrir aðra feður en námsmenn eða atvinnuleysingja að gera það nema þeir séu svo lánsamir að geta tekið sumarfríið sitt sem eins konar fæðingarorlof. Þetta ástand er engan veginn nógu gott. Ef mönnum er alvara í því að gera ungum feðrum eða feðrum yfirleitt kleift að gegna hlutverki sínu, þarf að skoða og ræða hugmyndir eins og þær sem koma fram í tillögu okkar kvennalistakvenna. Menn staldra alltaf við kostnaðarhlið málsins þegar rætt er um lengingu fæðingarorlofs og aukin réttindi foreldra. Það blasir við að stærsti þröskuldurinn í vegi fyrir því að feður taki fæðingarorlof, þ.e. þeir sem á annað borð hafa rétt til þess, er hversu fæðingarorlofsgreiðslurnar eru lágar. Fá heimili þola það hreinlega að tekjurnar lækki svo mjög sem við blasir ef karlar á skikkanlegum launum fá í staðinn þær fæðingarorlofsgreiðslur sem í boði eru. Þessar lágu greiðslur eru reyndar líka konum fjötur um fót. Sjálfsagt gætu flestir viðstaddra nefnt dæmi þess að konur í góðu starfi og á sæmilegum launum treysta sér varla í barneignir eða hugsa sig alltént vel um áður en þær skipuleggja barneignir. Þessi mál verða ekki leyst nema með einhverju nýju fyrirkomulagi. Það fyrirkomulag er lagt til með tillögunni sem hér er til umræðu, að stofnaður verði sérstakur fæðingarorlofssjóður sem allir atvinnurekendur jafnt í opinberum rekstri sem einkarekstri greiði til ákveðið hlutfall af launum allra launþega, svokallað fæðingarorlofsgjald, svona rétt eins og þeir greiða í aðra sjóði, sjúkrasjóði og lífeyrissjóði, þ.e. í gegnum tryggingagjaldið.

Við sem flytjum þetta þingmál gerum okkur mætavel grein fyrir því að atvinnurekendur verða ekkert yfir sig hrifnir, a.m.k. sennilega ekki karlkynsstjórnendur stórra, mannmargra fyrirtækja. Þeir munu sennilega líta á þetta eingöngu sem enn einn kostnaðarþáttinn. En svo er auðvitað alltaf með mál af þessu tagi. Við verðum að finna leið til þess að fjármagna betra líf fyrir börnin okkar og fyrir fjölskyldulíf yfir höfuð. Við skulum ekki gleyma því að þjóðfélag okkar tekur býsna mikið mið af þörfum atvinnulífsins og þær eru hreint ekkert fáar og smáar krónurnar sem færðar hafa verið til atvinnulífsins úr vösum og buddum almennings. Atvinnulífið hagnast ekki síður en einstaklingar og fjölskyldur á því að tryggja sómasamleg kjör foreldra ungra barna. Það er hagur okkar allra og ég vil leyfa mér að vona að þessar hugmyndir sem hér koma fram verði skoðaðar með opnum huga og áhuga.