Fæðingarorlof feðra

Mánudaginn 05. febrúar 1996, kl. 17:25:26 (2726)

1996-02-05 17:25:26# 120. lþ. 83.15 fundur 228. mál: #A fæðingarorlof feðra# þál., Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur


[17:25]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Um þessar mundir fer fram á vegum ríkisstjórnarinnar endurskoðun á lögum um fæðingarorlof og er þessi till. til þál. sett fram til að fá umræðu um málið á Alþingi og til þess að í ljós komi vilji þingsins um stefnumótun á þessu sviði. Það er ánægjuefni ef vilji reynist vera hjá stjórnvöldum til að gera ýmsar breytingar á lögum um fæðingarorlof með það fyrir augum að treysta og bæta fæðingarorlofið og þar með rétt barna til samvista við foreldra sína á fyrsta æviskeiðinu. Þannig má hiklaust líta á lengingu fæðingarorlofs sem aukin réttindi barna og fjölskyldunnar almennt. Hins vegar verður að segjast að skipunarbréf nefndarinnar sem vinnur að endurskoðuninni lofar ekki beint góðu því þar er sérstaklega tekið fram að breytingartillögur mættu ekki hafa í för með sér kostnaðarauka frá því sem nú er.

Spurningin er svo aftur sú hvað það kemur til með að kosta þjóðina þegar til lengri tíma er litið að vanrækja að hlúa að fjölskyldunni og uppeldi barna.

Þessi till. til þál. sem hér er talað fyrir er einskorðuð við fæðingarorlof feðra, þ.e. að feðrum verði tryggður réttur til a.m.k. tveggja vikna orlofs á launum við fæðingu barns. Hvað réttindi feðra til fæðingarorlofs snertir stöndum við öðrum Norðurlandabúum langt að baki. Aðrar Norðurlandaþjóðir hafa farið þá leið að tryggja feðrum sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs óháðan rétti móðurinnar enda hefur það sýnt sig að eftir að sjálfstæður réttur feðra kom til sögunnar tóku þeir fyrst við sér og fóru að axla þá ábyrgð að sinna ungum börnum sínum heima við í fæðingarorlofi.

Í Danmörku hafa feður rétt á 14 daga sjálfstæðu fæðingarorlofi á fyrstu 14 vikum eftir fæðingu barns. Árið 1991 nýttu 55% feðra sér þennan rétt. Finnskir feður eiga rétt á sex daga sjálfstæðu fæðingarorlofi og norskir feður eiga rétt á leyfi frá vinnu í tvær vikur í tengslum við fæðingu barns. Sá réttur er háður því að móðirin vinni utan heimilis. Í Svíþjóð hafa feður sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs, tvær vikur í tengslum við fæðingu og fjórar vikur sem falla niður ef faðir nýtir sér ekki réttinn. Með öðrum orðum, um er að ræða sjálfstæðan rétt óháðan rétti móðurinnar. Sé litið til tölfræðilegra upplýsinga og árið 1991 tekið sem dæmi, kemur í ljós að við hálfs árs aldur barnsins höfðu 25% feðra tekið að meðaltali 23 daga fæðingarorlof. Þegar barnið var orðið ársgamalt var meðaltalið komið upp í 53 daga fæðingarorlof hjá 39% feðranna. Fram til ársloka 1992 hækkuðu þessar tölur upp í 45,5% feðra og 63 daga. Þetta segir okkur að feðrum sem tóku fæðingarorlof fór fjölgandi, einnig eftir að barnið var orðið ársgamalt. Þessar tölur frá Svíþjóð sýna að feðurnir nýttu sér flestir réttinn til fæðingarorlofsins eftir að barnið var orðið hálfs árs gamalt.

Í tillögum karlanefndar Jafnréttisráðs, sem birtar eru sem fskj. með þáltill., er lögð áhersla á sveigjanleika í töku orlofs, til að mynda að dreifa megi því á tvö ár. Er í því sambandi bent á að erlendar kannanir sýni að sveigjanleiki skipti miklu máli til að fá feður til að taka fæðingarorlof. Karlanefnd Jafnréttisráðs telur að stefnt skuli að lengingu fæðingarorlofs í tólf mánuði og verði fjórir mánuðir bundnir föður, fjórir móður en fjórum geti foreldrar skipt eftir hentugleikum. Það er hins vegar lágmarkskrafa að feður fái tveggja vikna orlof á launum við fæðingu barns. Fjölskyldunni veiti ekki af þessum tíma meðan verið er að finna tilverunni nýjan takt, eins og komist er að orði í greinargerð karlanefndar Jafnréttisráðs.

[17:30]

Í greinargerð með þeirri tillögu til þál. sem hér er flutt segir svo aftur í þá veru að réttur feðra til tveggja vikna fæðingarorlofs sé fyrsti áfanginn á lengri leið. Fram til þessa hafa feður haft takmörkuð tækifæri til að vera samvistum við börn sín þegar þau eru mjög ung og eru á þessu ýmsar skýringar. Augljósasta ástæðan er sú að þar sem réttur til fæðingarorlofs er ekki aðgreindur liggur nánast í augum uppi að fyrstu daga og vikur er konan bundin yfir barni sínu. Með tveggja vikna sjálfstæðum rétti karla til launaðs orlofs í kringum fæðingu er stuðlað að því að fjölskyldan geti verið saman. Þetta er með öðrum orðum fjölskylduvæn stefna og þetta snýst um réttindi barna og þann rétt þarf að treysta hér á landi. Hér að framan voru nefndar samanburðartölur frá Norðurlöndum en sé litið á tölur frá Íslandi, þar sem feðrum hefur ekki verið tryggður sjálfstæður réttur, fengu aðeins 17 íslenskir feður greidda fæðingardagpeninga í fæðingarorlofi árið 1993 en sama ár fékk 5.501 móðir greiddan fæðingarstyrk.

Ein og eflaust nokkuð veigamikil ástæða fyrir því að karlar taka ekki fæðingarorlof er fjárhagsleg. Þegar á heildina er litið eru konur tekjulægri en karlar. Sé litið á málin út frá fjárhagnum einum er hægstæðara í peningalegu tilliti að konan hverfi úr launavinnu um sinn en karlinn. Sé hins vegar svo búið um hnúta að um takmarkaða tekjuskerðingu yrði að ræða og réttur til fæðingarorlofs væri aðeins að litlu leyti skiptanlegur heldur sjálfstæður fyrir hvort foreldri sanna dæmin erlendis frá eins og áður er að vikið að karlar snúa við blaðinu í þessu efni. Í rauninni snertir þetta mál réttindi allrar fjölskyldunnar, barnsins, föðurins og móðurinnar en einnig leikur ekki á því vafi að fæðingarorlof feðra mun stuðla að jafnrétti á milli kynjanna á vinnumarkaði.

Vitað er að margir atvinnurekendur líta á konur á barneignaraldri sem eins konar áhættuhóp. Atvinnurekendur hafa þann möguleika án efa í huga við ráðningu nýrra starfskrafta hvort líkur séu á því að viðkomandi einstaklingur verði fjarverandi vegna ungra barna og ætla má að hið sama sé uppi á teningnum þegar stöðuhækkanir eru til skoðunar. Axli feður þá ábyrgð að sinna börnum sínum í fæðingarorlofi á við mæður eru þeir komnir í sams konar stöðu og konur að þessu leyti. Þeir yrðu á sama hátt og konur áhættuhópur í þeim skilningi að reikna mætti með því að þeir yrðu frá vinnu vegna ungra barna sinna. Deili feður og mæður rétti til fæðingarorlofs yrði þannig stuðlað að auknu jafnrétti kynjanna, ekki aðeins inni á heimilinu heldur einnig á vinnustöðum. En það sem mestu máli skiptir er að með þessu móti er stuðlað að velferð fjölskyldunnar og þar með samfélagsins alls.

Hæstv. forseti. Ég legg til að þessi þáltill. verði að lokinni umræðunni vísað til síðari umr. og hv. heilbr.- og trn. þingsins.