Fæðingarorlof feðra

Mánudaginn 05. febrúar 1996, kl. 17:34:40 (2727)

1996-02-05 17:34:40# 120. lþ. 83.15 fundur 228. mál: #A fæðingarorlof feðra# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur


[17:34]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég hef svo sem ekki miklu við að bæta þar sem ég fjallaði um fæðingarorlof í ræðu minni við næsta dagskrármál á undan en mig langar þó að koma með athugasemdir. Formaður karlanefndar Jafnréttisráðs tók svo til orða í erindi sem hann hélt hjá Kvenfélagasambandinu á haustdögum að þótt lög, reglur og samningar væru beinlínis hannaðir með það í huga að koma í veg fyrir að feður gætu verið með ungum börnum sínum þá gæti það varla verið árangursríkara en þau lög og reglur sem við búum við í dag. Þetta er athyglisvert.

Ég vil líka geta þess að í doktorsritgerð Sigrúnar Júlíusdóttur og könnun sem hún byggir á frá 1993 um viðhorf para til vinnu og fjölskyldulífs kemur fram að 75% karla álitu sig ekki hafa nægan tíma með börnum sínum á meðan 60% kvenna töldu sig hafa nægan tíma og þetta er mjög marktækur munur. Þá má líka geta þess til samanburðar að meðalvinnuvika karla var í þessari könnun 55,8 stundir á viku á meðan meðalvinna kvenna var um 23,4 stundir og aðeins 10% karla unnu eingöngu 40 stundir á viku en meira en helmingur þeirra vann yfir 50 stundir. Þetta segir okkur hversu mikilvægt það er að búa þannig um hnúta að pör, hjón eða sambýlisfólk, geti skipt með sér verkum öðruvísi en með þessum hætti.

Virðulegi forseti. Mig langar til að nefna eitt til viðbótar sem Ingólfur Gíslason, sem flutti þetta erindi, beindi til mín. Það voru upplýsingar um að læknar sem skoðað hafa vinnuforföll kvenna í meðgöngu komust að þeirri niðurstöðu að það að gera öllum þunguðum konum kleift að hætta vinnu fyrir fæðinguna gæti verið þjóðhagslega hagkvæmt með tilliti til jákvæðra áhrifa á lengd meðgöngu og heilbrigði barna og mæðra. Æskilegast væri auðvitað að skerða í engu núverandi fæðingarorlof heldur lengja fæðingarorlof allra kvenna með þeim hætti að láta það einnig taka til síðasta mánaðar meðgöngunnar. Þetta er að sjálfsögðu engin ný tíðindi fyrir okkur konurnar en það er athyglisvert að þetta er m.a. tekið upp í þau sjónarmið sem þeir karlar sem hafa verið að vinna að þessum málum á vettvangi karlanefndar Jafnréttisráðs leggja áherslu á og eru að ýta við og styðja varðandi stöðu okkar kvennanna.