Læsivarðir hemlar í bifreiðum

Þriðjudaginn 06. febrúar 1996, kl. 14:13:52 (2737)

1996-02-06 14:13:52# 120. lþ. 84.7 fundur 248. mál: #A læsivarðir hemlar í bifreiðum# þál., Flm. RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur


[14:13]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. 11. þm. Reykv. að ég gerði ekki tilraun til að leggja mat á hvert tekjutap ríkisins yrði af samþykkt þessarar tillögu, reyndar minnar tillögu og þeirrar sem flutt var fyrir helgi. En ég gat þess að miðað við þær upplýsingar sem ég aflaði mér frá bifreiðaumboðunum virtist sem 3--5% seldra bifreiða á síðasta ári hefðu þennan búnað og um væri þá að ræða tekjur ríkisins af álögum á búnaði í þessu hlutfalli bifreiða. Það getur ekki verið um mikla fjármuni að ræða. Ég tek undir það með þingmanninum að þarna er um einhverjar milljónir að ræða. Þetta er ákvörðun um það að afla ekki tekna af þessum öryggisbúnaði og hvetja þar með til þess að hann verði í bifreiðum af öllu tagi eins og ég hef fyrir mælt og þá sérstaklega í þeim bifreiðum sem eru algengastar í innkaupum fjölskyldufólks.