Trúnaðarsamband fjölmiðlamanna og heimildarmanna

Þriðjudaginn 06. febrúar 1996, kl. 14:15:36 (2738)

1996-02-06 14:15:36# 120. lþ. 84.8 fundur 261. mál: #A trúnaðarsamband fjölmiðlamanna og heimildarmanna# þál., Flm. ÁRJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur


[14:15]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um endurskoðun á lagaákvæðum um vernd trúnaðarsambands fjölmiðlamanna og heimildarmanna þeirra. Hún er á þskj. 454, 261. mál. Flutningsmenn auk mín eru hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, Össur Skarphéðinsson, Jón Kristjánsson og Kristín Ástgeirsdóttir.

Ályktunin hljóðar svo, með leyfi forseta:

Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að skipa nefnd sem hafi það verkefni að endurskoða gildandi lög um vernd trúnaðarsambands fjölmiðlamanna og heimildarmanna þeirra. Við þá endurskoðun verði 53. gr. laga nr. 19/1991 skoðuð sérstaklega og lagt mat á það hvort þörf sé á frekari löggjöf sem miðar að því að tryggja aðstöðu blaðamanna og annars fjölmiðlafólks við starfa sinn, svo sem vernd þeirra gagna sem fjölmiðlamenn komast yfir, vernd starfsstöðvar þeirra o.fl. gegn rannsóknaraðgerð yfirvalda. Nefndin ljúki störfum fyrir 1. mars 1996.

Forsaga þess að þetta mál er lagt fram er sú að blaðamaður Morgunblaðsins var kallaður til að bera vitni hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins í máli sem spannst út frá skrifum hans um endalok stórrar viðskiptasamsteypu, þ.e. Sambands íslenskra samvinnufélaga, og uppgjör á skuldbindingum við aðalviðskiptabanka þess, Landsbanka Íslands. Þar neitaði blaðamaðurinn að gefa upp nafn á heimildarmanni sínum. Rannsóknarlögreglan krafðist þess þá að héraðsdómur úrskurðaði að blaðamanninum væri skylt að gefa slíkar upplýsingar. Til að gera langa stöðu stutta var niðurstaða héraðsdóms sú að blaðamanninum væri skylt að koma fyrir dóm og bera vitni. Forsendur úrskurðarins voru þær að réttur blaðamanns til að halda heimildarmanni sínum leyndum skyldi víkja fyrir hagsmunum bankaeftirlitsins við rannsóknina á meintu trúnaðarbroti starfsmanna Landsbanka Íslands.

Morgunblaðið kærði úrskurðinn til Hæstaréttar sem komst að gagnstæðri niðurstöðu, þ.e. að blaðamanninum bæri ekki að upplýsa um heimildarmenn sína fyrir dómi.

Í VIII. kafla laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, er fjallað um vitni, mat og skoðun. Þar er kveðið á um að öllum sé skylt að koma fyrir dóm í opinberu máli og bera þar vitni.

Þó vitnisburður teljist til réttlægri sönnunargagna í íslenskum rétti en önnur eru rökin að baki vitnaskyldu augljós. Vitnaskylda miðar að því að rétt niðurstaða komi í ljós og þar með vernd fyrir almenning.

Frá þessari meginreglu eru undantekningar. Í 50.--55. gr. er fjallað um þá sem skorast geta undan vitnaskyldu eða er óheimilt að bera vitni fyrir dómi um ýmis atriði vegna tengsla við sakborning eða trúnaðar sem fylgir starfsskyldum þeirra. Í 53. gr. er fjallað um vitnaskyldu fjölmiðlamanna. Ákvæðið var lögfest árið 1991 og er það fyrsta sinnar tegundar í lögum um meðferð opinberra mála og var afgreitt af löggjafanum án teljandi umræðu eða athugasemda. Athyglisvert er að ekki var leitað álits Blaðamannafélags Íslands eða annarra slíkra samtaka. Greinin átti sér fyrirmynd í dönsku réttarfarslögunum.

Annað sem er athyglisvert við þessa lagasetningu er að fyrirmyndin úr dönsku lögunum var lagagrein sem féll úr gildi sama ár og við Íslendingar lögtókum hana, þ.e. árið 1991. Fyrir danska þinginu lá nefnilega á þessum tíma frv. til laga um breytingu á umræddri grein sem gekk mun lengra í þá átt að vernda trúnaðarsamband blaðamanna eða fjölmiðlamanna við heimildarmenn sína. Í þeirri grein er kveðið á um að því aðeins verði blaðamaður að vitna um heimildarmenn sína að vitnisburðurinn hafi úrslitaáhrif varðandi rannsókn afbrots sem fjögurra ára fangelsisrefsing liggur við.

Í hinu danska lagaákvæði segir einnig að við mat á mikilvægi vitnisburðar blaðamanns við rannsóknina skuli hagsmunir fjölmiðla af því að sinna hlutverki sínu ávallt hafðir í huga. Í 53. gr. eru viðurkenndar starfsskyldur fjölmiðlamanna um trúnað við heimildarmenn sína. Þetta ákvæði á sér hliðstæðu í siðareglum Blaðamannafélags Íslands þar sem segir í 2. gr., með leyfi forseta:

Blaðamaður virðir nauðsynlegan trúnað við heimildarmenn sína.

Þessi siðaregla er alþjóðleg í fjölmiðlun og eru um það ótal dæmi að fjölmiðlamenn hafa heldur sætt varðhaldi og öðrum refsingum en að brjóta þessa reglu.

Í reglum um fréttaflutning Ríkisútvarpsins segir í 4. gr., með leyfi forseta:

Virða ber trúnað við heimildarmenn, bæði að því er varðar nafnleynd þeirra og trúnaðarupplýsingar.

Í framangreindri lagagrein eru ákvæði um undantekningar frá hinni almennu reglu um trúnað fjölmiðlamanna við heimildarmenn sína fyrir dómi. Annars vegar er kveðið á um að vitnisburðar sé krafist vegna afbrots sem ætla megi að varði þyngri refsingu en fésektum eða varðhaldi, enda sé vitnisburður nauðsynlegur fyrir rannsókn málsins og ríkir hagsmunir í húfi. Ekki er óeðlilegt að löggjafinn kveði með einhverjum slíkum hætti á um vitnaskyldu þessara starfsstétta.

Hér ganga Íslendingar mun lengra í því að takmarka nafnleyndina en Danir því að dómstólar hafa frjálsara mat hér og minni kröfur eru gerðar um hve alvarlegt það brot er sem verið er að rannsaka hverju sinni.

Hins vegar er kveðið á um að fjölmiðlamanni sé skylt að bera vitni vegna brots gegn þagnarskyldu í opinberu starfi enda sé vitnisburður nauðsynlegur fyrir rannsókn málsins og ríkir hagsmunir í húfi. Þrátt fyrir mikilvægi þeirrar þagnarskyldu verður að teljast óeðlilegt að binda fjölmiðlamenn sérstakri vitnaskyldu í slíkum dómsmálum. Það er eðli fjölmiðlastarfa að afla upplýsinga sem víðast að, afhjúpa spillingu og veita ríkisvaldinu aðhald. Skerðing á rétti fjölmiðlamanna til upplýsingaöflunar gerir þeim ókleift að gegna hlutverki sínu. Fjölmiðlamenn bera ábyrgð á birtingu efnisins samkvæmt m.a. meiðyrðakafla hegningarlaga, prentlögum og siðareglum en það er mikilvægt fyrir fjölmiðla í lýðræðissamfélagi að sem minnst höft séu lögð á sjálfa upplýsingaöflun þeirra. Mikilvægi frelsis við upplýsingaöflun sést best á því að líklegast er að almenningur í Bandaríkjunum hefði aldrei komist á snoðir um Watergate-málið ef blaðamenn Washington Post, Robert Woodward og Carl Bernstein, hefðu ekki getað tryggt heimildarmanni sínum fyllstu leynd. Minna má á að hérlendis hafa fjölmiðlamenn oft bent á mikilvægi þessa og á að enn eru engin lög til um upplýsingaskyldu hins opinbera og reglur og venjur um upplýsingar úr stjórnkerfinu eru óljósar og ósamstæðar, jafnvel svo að enn eru ekki tiltæk íslensk gögn um sögulega viðburði. Oftar en ekki verða gögn úr skjalasöfnum annarra ríkja því einu heimildir fjölmiðlamanna og sagnfræðinga um gang mála á Íslandi.

Ég set stórt spurningarmerki við það hvort mál vegna brota á þagnarskyldu í opinberu starfi hafi þá sérstöðu umfram önnur dómsmál að þau verði ekki felld inn í þann almenna ramma sem tiltekinn er í 1. mgr. 53. gr. um alvarleg brot. Enga ámóta hugsun er að finna í 55. gr. um vitnaskyldu presta, lækna, lyfsala, sálfræðinga, félagsráðgjafa, lögfræðinga og endurskoðenda. Varpa má fram þeirri spurningu hvort andi lagaákvæðisins brjóti ekki í bága við þróun í nútímaréttarríkjum sem miðar að opnari stjórnsýslu og virkara aðhaldi fjölmiðla gagnvart stjórnvöldum en áður var. Í því tilliti bendi ég á dómaframkvæmd hjá Mannréttindadómstóli Evrópu varðandi 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, um rétt til að taka við og miðla áfram upplýsingum, sem lögfestur var hér á landi með lögum nr. 62/1994. Hugmyndin um að nauðsyn sé á því að þögn og leynd hvíli yfir embættisfærslum stjórnvalda byggist að mínu mati á úreltum sjónarmiðum.

Hérlendis hefur ekki reynt á umrætt ákvæði 53. gr. fyrr en héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði 15. des. sl. að fyrrgreindum blaðamanni Morgunblaðsins væri skylt að bera vitni í tilteknu máli sem varðar meint brot á þagnarskyldu. Því máli var áfrýjað til Hæstaréttar eins og ég gat fyrr í máli mínu. Athyglisvert er að hefði blaðamaðurinn sætt sig við úrskurð héraðsdóms og borið vitni um heimildarmann fyrir dóminum má telja líklegt að hann teldist hafa brotið siðareglur Blaðamannafélags Íslands. Með því að hlíta úrskurði dómsins, sem felldur er á grunni umræddra ákvæða 53. gr., hefði blaðamaðurinn því orðið fyrir álitshnekki innan starfsstéttar sinnar og þrengt verulega starfsmöguleika sína við fjölmiðlun. Þá miða þvingunaraðgerðir gegn blaðamanninum í þessu tilviki að því að halda uppi trúnaðartrausti almennings á forustumönnum Landsbanka Íslands og því að bankaeftirlitið njóti trausts. Einnig er athyglisvert við dóminn að viðkomandi rannsókn beindist að banka í eigu ríkisins og með niðurstöðunni er sýnt að hagsmunir ríkisbankans eru mun betur tryggðir en hagsmunir einkabanka. Það er mál sem ástæða væri til að skoða sérstaklega hér á Alþingi.

Ég hef orðið vör við þann misskilning að með dómi Hæstaréttar í máli blaðamanns Morgunblaðsins sé endanlega búið að skapa umgjörð um heimild blaðamanna til að halda heimildarmönnum sínum leyndum. --- Það er víðs fjarri. --- Sams konar mál geta komið upp aftur og aftur þar sem kemur í hlut dómstóls að meta hverju sinni hvort hagsmunir annarra, t.d. hins opinbera, séu það ríkir að leynd heimildarmanna verði hrundið. Í þessu tiltekna máli var mat héraðsdóms annars vegar og mat Hæstaréttar hins vegar misvísandi. Á fundi Blaðamannafélags Íslands, sem haldinn var 18. jan. sl., kom fram að þingsályktunartillaga þessi væri mjög þörf og reyndar nauðsynleg fyrir blaðamenn og þeir litu með eftirvæntingu til þeirrar umræðu sem væntanlega færi fram á Alþingi þegar hún kæmi þar til umfjöllunar. Á fundinum kom fram að réttur blaðamanna væri mun betur tryggður í nágrannalöndum okkar en hér á landi. Noregur, Danmörk og Bandaríkin voru sérstaklega nefnd í því sambandi.

Mikilvægt er fyrir lýðræðið og frjálsa fjölmiðlun að fjölmiðlamenn njóti sömu eða sambærilegrar verndar samkvæmt lögum hér á landi og blaðamenn njóta í nágrannalöndum sem við berum okkur helst saman við. Það er grundvallarréttur fjölmiðlamanns að vernda heimildir sínar, réttur sem er virtur í öllum lýðræðisríkjum.

Eðlilegt er að nefndin sem hér er lagt til að sett verði á laggirnar verði skipuð bæði lögfróðum mönnum og blaðamönnum. Henni er ætlað það verkefni að endurskoða sérstaklega 53. gr. laga nr. 19/1991, skoða önnur lagaákvæði sem fjalla um trúnaðarsamband fjölmiðlamanna og heimildarmanna þeirra með tilliti til þess að styrkja starfsskilyrði þeirra, og skoða reglur um húsleit, símahleranir o.fl. í því sambandi.

Nú eru fyrirhugaðar breytingar hjá Pósti og síma í þá veru að símtöl símnotenda verða skráð og þeim þar með gefinn kostur á að fylgjast betur með reikningum sínum og símtölum. Í framhaldi af því mætti spyrja hvort lögreglan hefði aðgang að slíkum upplýsingum í tengslum við rannsókn mála og þá hver réttur blaðamanns verði í því sambandi. Skoða þarf reglur um ábyrgð á efni prentaðs rits eða öðru efni sem birt er opinberlega. Er eðlilegt að blaðamaðurinn, sem hér um ræðir, hafi verið settur í þá stöðu að mæta fyrir dóm og gefa upp heimildarmann sinn á meðan ritstjórinn, ábyrgðarmaður blaðsins, sat hjá? Hvaða reglur eiga að gilda um hlutdeild þegar blaðamaður tekur við upplýsingum sem fengnar eru t.d. með trúnaðarbroti heimildarmanns? Í 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfestur hefur verið hér á landi með lögum nr. 62/1992, er kveðið á um tjáningarfrelsi, rétt til að taka við upplýsingum og miðla þeim áfram. Við endurskoðun á hinu íslenska réttarástandi sem nefndinni er ætlað að fjalla um ber að hafa 10. gr. að leiðarljósi og það borið saman við réttarástand hjá öðrum þjóðum sem lengra eru komnar en við. Að öðrum kosti er hætt við því að mál af svipuðum toga og mál blaðamanns Morgunblaðsins verði lögð undir mælistiku dómaranna í Strassborg og við yrðum að sæta fyrirmælum þaðan.

Ég tel að æskilegra verði að gefa nefndinni lengri tíma til vinnu sinnar en gert er ráð fyrir í tillögunni en flutningsmenn leggja þó ríka áherslu á það að nefndin skili af sér fyrir árslok 1996.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu og legg til að málinu verði vísað til hv. allshn.