Trúnaðarsamband fjölmiðlamanna og heimildarmanna

Þriðjudaginn 06. febrúar 1996, kl. 14:39:28 (2740)

1996-02-06 14:39:28# 120. lþ. 84.8 fundur 261. mál: #A trúnaðarsamband fjölmiðlamanna og heimildarmanna# þál., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur


[14:39]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég hygg að með þessari till. til þál. sé hreyft máli sem nauðsynlegt er að Alþingi, löggjafarvaldið, og þá einkum og sér í lagi framkvæmdarvaldið fjalli mjög ítarlega um í ljósi nýrra tíðinda af meðferð mála af þessum toga og raunar eldri einnig þó að stundum hafi svipuð mál sem hafa komið upp varðandi trúnaðarsamband fjölmiðlamanna og heimildarmanna þeirra farið lægra en það mál sem er sérstaklega tilgreint í fskj. með þessari þáltill. Ég held að það sé algerlega ljóst að það er nauðsynleg regla og raunar réttur sem þarf að vera til staðar af hálfu fjölmiðlamanna ef þeir eiga að geta sinnt starfi sínu af viti þannig að gagn sé að fyrir almenning í landinu að þeir njóti mjög víðtæks og almenns réttar varðandi trúnað við heimildarmenn sína.

Gjarnan hefur það verið þannig í raun og sanni að yfirvöld hafa ekki gengið mjög hart í því að sækja fréttamenn til saka og kalla þá til dóms og laga til þess að upplýsa um þessi samskipti enda þótt réttur löggjafans og yfirvalda til þess sé allnokkur og þá sérstaklega er lýtur að stöðu opinberra starfsmanna. Ég fagna því mjög að tillaga af þessum toga sé komin fram en vil engu að síður undirstrika það eins og hv. síðasti ræðumaður nefndi réttilega að þessi þáttur mála er aðeins einn af fjölmörgum sem lúta að samskiptum fjölmiðla og opinberra aðila og svo auðvitað aftur samskiptum þeirra gagnvart lesendum sínum, hlustendum eða áhorfendum. Til þess að halda því til haga í ljósi orða sem féllu af hálfu síðasta hv. ræðumanns, hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur, var þáltill. um samskiptareglur fjölmiðla og opinberra aðila þegar kemur að frásögnum af harmrænum atburðum eins og það var orðað samþykkt skömmu fyrir síðustu kosningar. Dómsmrh. var þar falið að skipa nefnd til þess að fara yfir þetta ferli. Ekki síst í ljósi nýorðinna atburða í því sambandi er orðið mjög brýnt að dómsmrh. setji þessa nefnd á laggirnar og atburðir af þeim toga hafa komið upp sem hafa gefið tilefni til þess að fjölmiðlar hefðu þurft að fara mun varlegar í sakir en þeir sumir hverjir hafa gert. Fórnarlömb slíks málflutnings og slíkra fjölmiðlafrétta hafa einmitt borið sig illa undan verklagi og vinnubrögðum einstakra fjölmiðla í því sambandi.

Virðulegi forseti. Ég legg áherslu á að brýnt er að umræðan fái líka það vægi sem nauðsynlegt er, ekki síst í ljósi þess að maður áttar sig fljótlega á því við lestur verklagsreglna annars vegar fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar og hins vegar Ríkisútvarpsins, hljóðvarps og sjónvarps, sem er að finna í fskj. með þáltill. að nokkur mismunur er á almennum verklagsreglum þegar kemur einmitt að þessum þætti mála og raunar segja dæmin sitthvað í því sambandi.

Það liggur líka ljóst fyrir að ábyrgð fjölmiðla þegar kemur að birtingu frétta eða fréttatengds efnis, skýringa af ýmsum toga, þegar um er að ræða frásagnir óafngreindra heimildarmanna, ábyrgð fjölmiðla undir þeim kringumstæðum auðvitað eykst að sama skapi mjög verulega. Þá liggur ábyrgðin ef vegið er að einstaklingum á hendi viðkomandi fjölmiðils sem er ekki um að ræða ef viðkomandi heimildarmaður lýsir viðhorfum sínum eða upplýsingum undir nafni. Með öðrum orðum færist til ábyrgð við það eitt að heimildir eru frá ónafngreindum aðilum. Þetta leggur að sama skapi stórauknar byrðar og stóraukna ábyrgð á hendur fjömiðlum, ekki eingöngu vegna þess að þeir þurfa þá að svara fyrir þessar upplýsingar almennt, heldur líka að erfiðara er en ella að lesa úr því hvað er satt.

[14:45]

Auðvitað er hárrétt, eins og hv. síðasti ræðumaður nefndi, að til eru þau dæmi að ónafngreindir heimildarmenn reyni að koma á framfæri upplýsingum sem eru e.t.v. ekki sannleikanum samkvæmar heldur settar fram til þess eins að hrinda af stað ákveðinni rógsherferð gagnvart einstaklingum eða stofnunum. Aðalatriðið er þá ekki að hafa sannleikann með í för. Enn og aftur leggur þetta samskiptaferli fjölmiðla og ónafngreindra heimildarmanna fjölmiðlum á herðar það hlutverk að greina á milli þess sem hlutlægt er og hins vegar þess sem vænta má að ónafngreindir heimildarmenn vilji sérstaklega koma á framfæri vegna sinnar eigin stöðu. Þessi tillaga er því gott innlegg inn í þá víðtæku umræðu sem ég hygg að þurfi að fara fram í þjóðfélaginu og þá ekki síst í þessari stofnun hér. Auðvitað kemur þar ævinlega að sama þættinum, þ.e. með hvaða hætti hægt er að tryggja greiðara upplýsingaflæði frá opinberum aðilum til fjölmiðla og þar með þjóðarinnar. Þá vísa ég auðvitað til þess að árum og jafnvel áratugum saman hefur verið rætt um nauðsyn þess að koma frá Alþingi löggjöf sem tryggi ákveðna upplýsingaskyldu stjórnvalda er taki mið af hagsmunum almennings og að upplýsingar frá frá einni stofnun til annarrar séu með hliðstæðum hætti. Við þurfum að kalla mjög ákveðið eftir því og við eigum líka að ræða það. Ég hef enn ekki mótað mér skoðanir varðandi það hvort einhver ástæða sé til að skoða sérstaka löggjöf um fjölmiðla landsins. Ég hef ákveðnar efasemdir um það. Við þurfum að fara mjög varlega í slíka umræðu. En almenn umræða um fjórða valdið í okkar samfélagi er mjög brýn. Sú þáltill. sem hér er til umræðu er mjög mikilvægur þáttur í þeirri heildarumræðu sem þarf að fara fram um málið.