Trúnaðarsamband fjölmiðlamanna og heimildarmanna

Þriðjudaginn 06. febrúar 1996, kl. 14:48:08 (2741)

1996-02-06 14:48:08# 120. lþ. 84.8 fundur 261. mál: #A trúnaðarsamband fjölmiðlamanna og heimildarmanna# þál., Flm. ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur


[14:48]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Mig langar til að þakka hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni um þetta mál. Það er ljóst af máli þeirra að það er tímabært og nauðsynlegt að hefja þá vinnu sem þeirri nefnd sem við leggjum til að sett verði á laggirnar er ætluð. Mér þykir aftur á móti slæmt að hæstv. dómsmrh. skuli ekki hlýða á þessa umræðu. Hann er fyrrv. blaðamaður og ætti að vita hversu brýnt það er að taka á löggjöfinni varðandi málefni og aðstöðu blaðamanna.

Mig langar til að minnast á reglur um samskipti fjölmiðla og hins opinbera og ýmislegt fleira sem fram kom í umræðunni hjá þeim tveimur hv. þingmönnum sem tóku til máls. Ég vil líka minna á að fyrir þinginu liggur þáltill. um fjölmiðlastefnu þar sem gert er ráð fyrir vinnu varðandi þá þætti sem þar voru nefndir, þ.e. þáltill. sem varaþingmaður Þjóðvaka í Reykn., Lilja Guðmundsdóttir, er 1. flm. að og ég meðflm.

Í Noregi hefur slík fjölmiðlastefna verið lögfest og var hún höfð til viðmiðunar við gerð fyrri þál. Aftur á móti langar mig, vegna þeirrar umræðu sem fór fram um rétt blaðamanna, að vitna í grein sem Ólafur Jóhannesson, prófessor og fyrrv. forsrh., ritaði í Úlfljót árið 1969 um prentfrelsi og nafnleynd. Þar kemur hann mjög víða að því hvernig tryggja beri trúnaðarsamband fjölmiðlamanna og heimildarmanna þeirra. Hann segir þar, með leyfi forseta:

,,Nafnleyndarrétt blaðamanna á löggjafinn þrátt fyrir allt að viðurkenna skýrt og ótvírætt. Frá honum á ekki að gera aðrar undantekningar en almannahagsmunir krefjast. Þær undantekningar á að taka fram í lögum. En þrátt fyrir réttinn fer best á að blaðamenn sjálfir noti nafnleynd í hófi. Fastir blaðamenn ættu sem oftast að skrifa undir nafni. Það gefur hinu ritaða orði þeirra aukið gildi. Nafnleyndarréttur á ekki aðeins að taka til greina sem ritaðar eru í blað, heldur og til þeirra heimildarmanna blaðamanna er gefa þeim munnlegar upplýsingar. Hér á ekki aðeins að vera um rétt að ræða, heldur og skyldu til leyndar. Sá leyndarréttur og sú leyndarskylda á ekki að ná til blaðamanna einna, heldur einnig annarra sem vegna starfa sinna við útgáfu blaðs geta fengið vitneskju um höfund eða heimildarmann án þess að þeim sé frá því sagt, t.d. til setjara í prentsmiðju.``

Ólafur Jóhannesson ræðir í þessari grein um prentfrelsið og nafnleyndina. Þar kemur skýrt fram að prentfrelsi verður ekki án ábyrgðar og ekki verður nafnleynd án prentfrelsis. Það er ljóst að það verður að taka heildstætt á þessum málum. Ég vona að þessi þáltill. fái góða afgreiðslu í allshn. og nefnd sú sem tillagan gerir ráð fyrir verði sett á laggirnar og ljúki störfum fyrir árslok. Það er mjög mikilvægt fyrir starfsvettvang fjölmiðlamanna og blaðamanna.