Trúnaðarsamband fjölmiðlamanna og heimildarmanna

Þriðjudaginn 06. febrúar 1996, kl. 15:01:06 (2743)

1996-02-06 15:01:06# 120. lþ. 84.8 fundur 261. mál: #A trúnaðarsamband fjölmiðlamanna og heimildarmanna# þál., Flm. ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur


[15:01]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Andsvar gefur ekki langan tíma til að reifa málin enda var ég búin að flytja rök fyrir því að það er ærin ástæða fyrir að setja þessa vinnu í gang. Mér fannst gæta allmikils misskilnings á málinu hjá síðasta hv. ræðumanni. Það er eðli fjölmiðlastarfa að afla upplýsinga, afhjúpa spillingu og veita ríkisvaldinu aðhald. Skerðing á rétti fjölmiðlamanna til upplýsingaöflunar gerir þeim ókleift að sinna því hlutverki sínu. Þess vegna er þetta mikilvægt og sérstaklega í lýðræðisríkjum. Það sem hefur verið að gerast í öllum löndum í kringum okkur hefur verið í þá veru að tryggja rétt blaðamanna og fjölmiðlamanna til að halda trúnað við heimildarmenn sína. Ég get ekki farið nánar í þetta tímans vegna. En að sjálfsögðu mun nefndin sem sett verður á laggirnar til að fara í þá vinnu að tryggja þetta trúnaðarsamband í lögum, eins og ég vona að verði að veruleika, hafa umræðuna á Alþingi um þetta mál að leiðarljósi og til skoðunar, auk þeirra lagagreina sem snúa að fjölmiðlamönnum í þessu efni.