Trúnaðarsamband fjölmiðlamanna og heimildarmanna

Þriðjudaginn 06. febrúar 1996, kl. 15:02:38 (2744)

1996-02-06 15:02:38# 120. lþ. 84.8 fundur 261. mál: #A trúnaðarsamband fjölmiðlamanna og heimildarmanna# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur


[15:02]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Nefndin, sem mun starfa ef þetta verður samþykkt, mun fyrst og fremst hafa til hliðsjónar þá tillögugrein sem verður samþykkt. Það er nú það sem er kjarni málsins. Ég legg áherslu á að það þurfi að breyta henni til þess að útvíkka hlutverk hennar. Hún er of þröngt orðuð. Menn eiga að leggja áherslu á að breyta landslögum þannig að menn tryggi rétt almennings til upplýsinga hvort heldur það eru fjölmiðlar eða aðrir. Við eigum að tryggja upplýsingaflæðið með beinum hætti sem mest en ekki að gera leynilega þáttinn að aðalatriði málsins. Ef lýðræðisríki á að standa undir nafni verður það að byggjast á því að aðgangur að upplýsingum liggi sem beinast fyrir mönnum, almenningi og fjölmiðlamönnum samkvæmt lögum en ekki samkvæmt ólöglegum aðferðum.