Trúnaðarsamband fjölmiðlamanna og heimildarmanna

Þriðjudaginn 06. febrúar 1996, kl. 15:03:57 (2745)

1996-02-06 15:03:57# 120. lþ. 84.8 fundur 261. mál: #A trúnaðarsamband fjölmiðlamanna og heimildarmanna# þál., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur


[15:03]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég skal nú ekki verða til þess að teygja þessa umræðu á langinn. Hins vegar vil ég undirstrika það sem ég sagði áðan að hér erum við vissulega aðeins að fjalla um einn tiltekinn þátt fjölmiðlunar og það hvernig löggjafarvaldið og fjölmiðlar sjálfir fara með þann þátt í sínum störfum frá einum degi til annars. Það er hárrétt hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að vissulega er meginmálið það að tryggja almennan venjubundinn aðgang að upplýsingum sem fjölmiðlar síðan vinna úr og koma á framfæri til þjóðarinnar. Það hlýtur að vera hin venjubundna regla.Til þess að tryggja að sá framgangsmáti geti orðið almennur og hin venjubundna regla en heyri ekki til undantekninga þá gerum við það með því að ganga í það löggjafarstarf sem lýtur að upplýsingaskyldu stjórnvalda. Þessi þáttur máls er mjög afmarkaður og lýtur eingöngu að því hvort það beri að líta á það undir einhverjum kringumstæðum sem lögbrot að taka á móti upplýsingum. Það er ekki verið að fjalla um það hvort ólögmætt sé af hálfu einstaklinga að veita þessar upplýsingar heldur eingöngu hvort að fjölmiðlamenn geti tekið og unnið sitt starf með þeim hætti að taka á móti upplýsingum af þessum toga og notið ákveðinnar verndar löggjafarvaldsins í þeim þætti sinna starfa. Ég held að það sé nauðsynlegt að taka þetta mjög skýrt fram.

Hvað varðar orðaræður um vernd einstaklinga og hugsanlega hópa gagnvart fjölmiðlum, þá er það að sönnu allt annar þáttur. Eins og ég gat um í fyrri ræðu minni rifjaði ég það upp að þingsályktunartillaga í þá veru var samþykkt hér á síðasta vori, fyrir síðustu kosningar. Það er mjög mikilvægt að einmitt sá þáttur sem er líka að sönnu mjög afmarkaður, fái nauðsynlega skoðun og nefndin sem þar um ræðir hefji störf hið allra fyrsta því eins og ég gat um þegar kemur að þeim þætti þá er nokkuð misjafnt hvaða vinnureglur og verklagsreglur fjölmiðlar viðhafa í þeim efnum. Siðareglur blaðamanna eru þar eitt, reglur um fréttaflutning útvarpsins eru annað og eins og getur í fskj. III, eru siðareglur fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar það þriðja. Þar er nokkur mismunur á þegar kemur að því hvernig fara skuli með mjög viðkvæmar fréttir sem lúta að harmrænum atburðum, fréttir sem hugsanlega gætu valdið saklausu fólki eða þeim sem um sárt eiga að binda óþarfa sársauka eða vanvirðu ef ekki er rétt að staðið. Því miður hefur þróun mála orðið sú í seinni tíð að svona slysum, ef ég má orða það svo, í vinnubrögðum fjölmiðla hefur frekar fjölgað heldur en hitt og sum þeirra eru býsna slæm. Ég sat fyrir ekki margt löngu til að mynda ráðstefnu Samtaka um sorg og sorgarviðbrögð, Nýrrar dögunar, þar sem var fjallað um þessi mál. Þar áttu forsvarsmenn þessara samtaka orðastað við fréttastjóra Stöðvar 2. Tínd voru til ýmis tilvik þar sem augljóst var að fréttamenn höfðu gengið lengra en góðu hófi gegndi. Í hinni hörðu keppni um að vera fyrstur með fréttirnar hafði sú gullna regla gleymst að gæta þess að valda ekki saklausu fólki óþarfa sársauka. Þessi vinnubrögð þekkjum við erlendis frá. Ég held að þess sé skemmst að minnast, fyrir allnokkrum árum síðan raunar, þegar flugvél hrapaði í New York og sýnt var í beinni útsendingu frá tilraunum björgunarmanna að bjarga mannslífum úr straumharðri á sem var ísi lögð. Ég held að svona fréttaflutning viljum við Íslendingar ekki og viljum ekki yfir okkur kalla, því að þessir þættir eru hér kannski sýnu viðkvæmari en gerist úti í hinum stóra heimi sökum fámennisins, sökum þess hversu algengt það er að maður þekki mann og annan. Það er því kannski einkum og sér í lagi af þeim sökum sem við þurfum að stíga varlegar til jarðar en ella. Vissulega er það þannig að vel flestir fjölmiðlar gæta sín. En slysin eru hins vegar allt of mörg. Það leiðir aftur að því sem ég sagði hér áðan að þegar fjölmiðlar verða að hafa þann hátt á að sækja sér fréttir eftir óhefðbundnum leiðum, þ.e. frá ónafngreindum heimildarmönnum, leggur það aukaábyrgð á þessa sömu fréttamenn um að greina á milli þess sem réttast kann að vera og hins sem hugsanlega er komið á framfæri af einhverjum öðrum hvötum. Þá reynir á það hvort að fréttamennskan er hlutlæg, hvort hún sé ,,objektíf`` eða hvort hún sé hlutdræg, ,,subjektíf``. Það er því miður þannig að allt of margir fréttamenn hafa í seinni tíð fundið til þessa valds síns sem að sönnu er mjög mikið. Þeir hafa farið offari í því að fara fram með upplýsingar án þess að kanna til hlítar hvort þær séu á rökum reistar, þ.e. á vondu máli, virðulegi forseti, að ,,double tékka`` þær upplýsingar sem fram færu með þessum hætti. Það er mjög mikilvægt í allri fjölmiðlavinnu. Þó að afsaka megi margt með því að á íslenskum fjölmiðlum vinnur fátt fólk í samanburði við hina stóru fjölmiðla úti í heimi þótt tímapressan sé nákvæmlega sú sama, þá afsakar það ekki að hin almenna regla verður að vera sú að fréttamaður vandi vinnubrögð sín. Og hann þarf að vanda þau miklum mun betur þegar heimildarmenn eru ekki sjáanlegir heldur fela sig á bak við nafnleynd sem á stundum kann að vera nauðsynleg. Ég get að sönnu tekið undir það að hér er um að ræða eingöngu einn þátt af stóru og miklu máli sem ég held að við alþingismenn eigum að ræða miklum mun frekar. Ekki undir þeim formerkjum að koma böndum á prentfrelsi í landinu eða rétt fjölmiðlamanna heldur eingöngu til þess að við séum þátttakendur í þeirri viðamiklu umræðu sem á sér að sönnu stað í þjóðfélaginu um hlutverk fjölmiðla og þróun þeirra á allra síðustu árum. Þar hefur orðið bylting og henni er langt í frá lokið og þingmenn og löggjafarsamkundan mega ekki sitja þar eftir án þess að leggja orð í belg.