Gjald af áfengi

Þriðjudaginn 06. febrúar 1996, kl. 15:26:21 (2748)

1996-02-06 15:26:21# 120. lþ. 84.9 fundur 269. mál: #A gjald af áfengi# (forvarnasjóður) frv. 85/1996, RG
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur


[15:26]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég tek undir þau orð flm. að þessa dagana sitja fyrst og fremst stjórnarandstöðuþingmenn í þingsal. Ég geri mér grein fyrir því að það er hárrétt sem forseti nefndi að það er góður vilji til að setja þingmannamál á dagskrá, en staðreyndin er eflaust sú að það eru fyrst og fremst stjórnarandstöðuþingmenn sem flytja þingmannamálin. Það er umhugsunarefni að í gær sátum við í þingsal og stjórnarliði flutti mál um tímamun. Annar stjórnarliði andmælti málinu en þeir sem sátu í salnum voru stjórnarandstæðingar.

Virðulegi forseti. Ég tek til máls út af frv. til laga um breytingu á lögum um gjald af áfengi. Ég er meðflm. að þessu máli og styð heils hugar það sem fram kom í máli flm. um mikilvægi þess að breyta grundvellinum fyrir úthlutun eða styrkjum sem veittir eru úr þessum sjóði til forvarnaverkefna vegna þess að það er mikilvægt að þurfa ekki að greina á milli hvort vandinn er áfengisvandi eða annar vímuefnavandi. Ég geri hins vegar ekki lítið úr því að veita þurfi fjármagn til áfengisvarna. Í raun ætti að vera möguleiki á að veita fjárhæð eins og þeirri sem hér er fjallað um til áfengisvarna og annarri eins til vímuefnavarna miðað við umfjöllun um málið í sölum Alþingis.

Við erum reyndar mjög upptekin af vímuefnavandanum í dag og það er full ástæða til og mikilvægt að öflug umræða eigi sér stað um allt þjóðfélagið eins og hér á Alþingi, að allir reyni að leggja sitt af mörkum til að átta sig á hvað sé til ráða. Þar sem við erum að fjalla um sjóð sem á að vera forvarnasjóður til áfengisvarna vil ég nota tækifærið til að segja frá frétt sem ég heyrði á bresku fréttastöðinni BBC í haust. Hún var á þá lund að í skýrslu sem þá var verið að kynna í Bretlandi kom fram að tíu sinnum fleiri ungmenni létust af völdum áfengisneyslu en af völdum vímuefnaneyslu. Þessi frétt var mjög sláandi og óhugnanleg og hún kom mér mjög á óvart. Ég hefði einmitt haldið að þessu væri öfugt farið. Það mátti líka lesa úr viðbrögðum þeirra sem fjölluðu um skýrsluna og talað var við í fréttatímum þetta kvöld sem ég hlustaði á fréttir á þessari ágætu stöð að þessar upplýsingar virtust koma þarlendum jafnmikið á óvart og mér.

Þess vegna lít ég svo á að þessi tillaga sé ekki flutt í þeim tilgangi að láta deigan síga í baráttunni við áfengisneyslu ungmenna, síður en svo. Það er full ástæða til að minna á mál eins og landabrugg og aðgang unglinga að því efni. Í raun og veru þarf að taka mjög á í öllum forvörnum og fræðslu í þessu máli sem og öðrum.

Það er hins vegar alveg ljóst að það er erfitt að aðskilja þessi mál, þ.e. neyslu vímugjafanna, áfengis og annarra efna. Baráttan gegn þessari vá þarf að vera markviss og það þarf að nýta mjög vel það fjármagn sem lagt er til forvarnaaðgerða. Mér hefur hins vegar fundist nokkuð óljóst, virðulegi forseti, hvaða fjármunir renna í forvarnasjóðinn eða réttara sagt hvaða fjármunum á að verja til forvarnastarfa. Í umræðu um fjárlög fyrir jól var þess gjarnan getið að auka ætti mjög framlag til forvarnastarfa, að meira fjármagn yrði til umráða í þessu skyni en áður. Samkvæmt þeim tölum sem við, nokkrir fulltrúar úr félmn., reyndum að lesa út úr fjárlögunum gátum við ómögulega fundið annað en þarna væri bara um örlitla hækkun að ræða, e.t.v. 10 millj. Þetta voru mun lægri tölur en rætt hefur verið um í þessum ræðustól. Ég tek því líka undir það með framsögumanni að það er mjög miður fyrir okkur sem erum að reyna að átta okkar á þessum málum og viljum leggja góðum stjórnvaldsaðgerðum lið að ráðherrar sjái sér ekki fært að vera viðstaddir umræðuna. Í mörgum tilvikum fá mál einmitt góða og málefnalega umfjöllun í sambandi við þingmál af þessu tagi, oft miklu málefnalegri og á öðrum nótum en þegar verið er að rjúka til út af umdeildum aðgerðum ríkisstjórnar og afmörkuðum þáttum þegar svo ber undir.

[15:30]

Þessar tölur sem ég er að vísa til voru aðrar en þær sem heilbrrh. gaf upp og það væri mjög áhugavert fyrir okkur að fá að vita hve mikið nýtt fjármagn kæmi í þennan sjóð og almennt til forvarnastarfa áfengis- og vímuefna. Þessi spurning er alls óháð því að ég tel rétt að vera með einn sjóð svo að hægri höndin viti hvað sú vinstri gerir.

Það vekur líka til umhugsunar um ýmsar upplýsingar sem hafa komið fram frá ríkisstjórninni um aðgerðir. Þar er margt mjög gott að heyra og ég tek undir ýmislegt sem þarna hefur verið gert og vil hrósa því sem vel hefur verið gert. Þar nefni ég fyrst framlag menntmrh. til Félags framhaldsskólanema. Mig minnir að 3 millj. hafa verið veittar til svokallaðrar jafningjafræðslu. Þetta var góð aðferð, þetta var gott mál og miklu betra en 3 millj. gefa til kynna. Með þessu er verið að virkja unga fólkið. Það er verið að vekja það til umhugsunar um meðbræður sína, ungt fólk á sama aldri og það er verið að fá þau til aðgerða. Það flytur umræðuna til þeirra sjálfra og það kveikir spurningar í þeirra eigin huga, hvernig viljum við viðhafa þessa hluti og hvernig viljum við ná til félaga okkar. Það vill svo til að ég þekki mjög vel nokkur þeirra ungmenna sem hafa farið í jafningjafræðsluna. Þau eru mjög upptekin af því að verða til liðs og þau hafa verið með frjóar hugmyndir til þess að beita sér í þessu mikilvæga máli. Þarna vil ég nota tækifærið og hrósa menntmrh. fyrir mál sem var ekki svo stórt um leið og þetta var gert en sem vefur utan á sig og verður mjög gott og kannski miklu stærra en hann gerði sér grein fyrir þegar hann veitti 3 millj. til þessa verkefnis.

Margt annað finnst mér hins vegar óljósara. T.d. hef ég heyrt um nefndaskipan á vettvangi dómsmrh. Ég átta mig alls ekki á um hvað sú nefnd mun fjalla eða hvaða verkefni verða á verksviði hennar. Einnig hef ég heyrt tilkynningu frá heilbrrn. um ákveðna upplýsingamiðstöð til foreldra sem starfrækt verður hjá barna- og unglingageðdeildinni. Þar hef ég t.d. allt aðrar upplýsingar um hvar slík ráðgjafarstöð eða upplýsingamiðstöð ætti að vera og kom mér mjög á óvart að það hefði þótt henta að setja hana niður nákvæmlega þarna um leið og ég tek undir það hversu mikilvægt er að vera með öfluga ráðgjafarmiðstöð eða upplýsingamiðstöð af þessu tagi. Ég er samt ekki í nokkrum vafa um að þær hugmyndir sem hafa komið fram eru um margt góðar en þær eru óljósar.

Alþingi tók þessi mál til mjög góðrar og málefnalegrar umræðu í desember. Sú umræða var góð og það sem var mikilvægast þar var að þeir ráðherrar sem koma að málinu og sem þessi mál heyra undir voru allir viðstaddir og tóku þátt í umræðunni. Það skapaði málefnalegar samræður milli þingmanna og ráðherra sem þyrfti að vera miklu meira af og er allt of lítið af í þessum sal. Ég vildi óska þess, virðulegi forseti, að við gætum oftar komið af stað góðri umræðu um mörg mál sem skiptir miklu máli að þjóðin viti að við tökum til umræðu á Alþingi. Ég harma að sú umræða sem þá fór fram fékk tiltölulega litla athygli út á meðal þjóðarinnar og það hefur verið mjög mikilvægt að koma því til skila að við ræðum þessi mál og við viljum öll takast á við þetta vandamál og taka höndum saman hvort heldur er í stjórn eða stjórnarandstöðu um að ná árangri í þessu stóra máli sem fíkniefnavandinn er.

Virðulegi forseti. Mér finnst því mjög mikilvægt að fylgja þessu máli eftir sem við hófum í desember. Mikið hefur verið að gera hjá ríkisstjórninni og sumt er alveg ljóst fyrir okkur að er gott mál, annað er óljósara eins og ég sagði áðan. Það er tillaga mín, og ég mun fylgja henni eftir og hef þegar gert það við formenn viðkomandi nefnda, að heilbr.- og félmn. Alþingis efni til sameiginlegs fundar þessara tveggja nefnda og kalli þar eftir að forsvarsmenn ráðuneytanna sem koma að vímuefnavandanum mæti á slíkum fundi hjá nefndunum sameiginlega og fari yfir það hvað er á döfinni hjá ráðuneytunum, í ráðuneyti menntamála, í ráðuneyti heilbrigðismála og í ráðuneyti félagsmála. Menntmn. gæti komið að þessum málum en afleiðingar þessara mála heyra undir heilbr.- og trn. Hugmynd mín hefur fengið mjög góðar undirtektir formanna og ég mun þess vegna óska eftir því að slíkir fundir geti orðið og við fáum áfram mjög gott samstarf við ráðuneytin sem um þessi mál véla. Alþingi geti þess vegna haldið áfram að vera aðili sem með ríkisvaldinu lætur sig þessi mál varða og það verði hlustað á sjónarmið okkar hvort heldur er í stjórn eða stjórnarandstöðu um hvað betur megi fara og að við sýnum það virkilega að við ætlum að taka saman á þessu máli og þetta er eitt af þeim málum sem mun ekki verða stjórnar- og stjórnarandstöðumál, og þá legg ég áherslu á andstöðumál, nema því aðeins að ríkisvaldið láti deigan síga í málinu.