Réttarstaða fólks í vígðri og óvígðri sambúð

Þriðjudaginn 06. febrúar 1996, kl. 15:55:48 (2752)

1996-02-06 15:55:48# 120. lþ. 84.12 fundur 280. mál: #A réttarstaða fólks í vígðri og óvígðri sambúð# þál., Flm. KÁ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur


[15:55]

Flm. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur fyrir innlegg hennar í umræðunni og þær upplýsingar sem komu fram í ræðu hennar. Eins og kemur fram í þskj. var greinargerðin birt óbreytt en að sjálfsögðu hefði verið ástæða til að gera hana nákvæmari. Ýmsar lagabreytingar hafa orðið sem snerta þetta mál en sem breyta ekki inntaki tillögunnar. Sannleikurinn er sá að það er nánast að æra óstöðugan að elta uppi breytingar á almannatryggingalögunum, þeim er breytt á hverju einasta ári. Eins og ég nefndi reyndar í framsögu minni hafa víðar orðið breytingar eins og á lögunum um félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem um það var að ræða að jafna rétt milli fólks í hjónabandi og óvígðri sambúð.

Ég tek undir það sem kom fram í ræðu hv. þm. að maður rekur sig ótrúlega oft á að það er sérstaklega algengt að konur eru ekki skráðar fyrir eignum. Ég get upplýst það til gamans að ég hef haft þá reglu ef ég hef tekið lán eða eitthvað slíkt að fá konur til að skrifa upp á þau með mér sem ábyrgðarmenn. Þá kemur ótrúlega oft í ljós að þær halda að þær séu skráðar fyrir eignunum af því að þær hafa skrifað undir kaupsamninga eða slíkt en þær eru það bara ekki, þetta þarf að gera formlega. Þetta þurfa konur auðvitað að athuga hvort sem þær eru í hjónabandi eða í óvígðri sambúð.

Það er hárrétt sem fram kom hjá hv. þm. varðandi þá þingsályktun sem rætt var um að ég hygg að henni hafi því miður ekki verið fylgt eftir. Þó vil ég ítreka það sem ég sagði áðan að það er nefnd að störfum sem er að fara í gegnum sifjalög. Ætli það séu ekki um tvö eða þrjú ár síðan gerðar voru miklar breytingar á lögum um hjónaband þar sem m.a. var rætt um upplýsingaskyldu hjóna þeirra í milli. Var gert hálfgert grín að því að nú þyrftu karlmenn að segja konunum sínum hvað þeir ættu mikla peninga og að upplýsa slíka hluti. En þarna voru gerðar allnokkrar breytingar. Það væri gaman að vita hversu upplýst fólk er um þær. Það er nefnilega galli á stjórnkerfi okkar að við erum sífellt að samþykkja ný lög og eins og kom fram í mati Sameinuðu þjóðanna á réttarstöðu kvenna hér á landi, þ.e. formlegum réttindum kvenna, þá stöndum við best allra kvenna í heiminum hvað varðar þessi formlegu réttindi en svo blasir við okkur að lögunum er bara ekki framfylgt, þau eru ekki kynnt og þeim er ekki framfylgt. Það dugir ekki að birta lög og reglur í Stjórnartíðindum og Lögbirtingarblaðinu og í slíkum ritum, það þarf miklu meira að koma til. Hér er einmitt um eitt slíkt dæmi að ræða sem snertir daglegt líf fólks og getur skipt óhemjulega miklu máli fyrir allt líf og starf. Þarna þarf að standa miklu betur að málum. Einmitt þær lagabreytingar sem hv. þm. Ragnheiður Ásta Jóhannesdóttir nefndi og koma einnig fram í greinargerð og ég nefndi, t.d. varðandi sifjalögin, undirstrika að það þarf með reglulega að kynna fólki hver eru réttindi þeirra eru og hverjar skyldurnar eru þegar um hjónaband og sambúð er að ræða.

[16:00]

Að lokum, hæstv. forseti, minnist ég þess að einmitt í kringum þessa umræðu um hjónabandið og sifjalögin urðu nokkrar umræður um hvort að það ætti að vera munur á þessum tveimur formum. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að vera munur. Fólk á að geta valið á milli tveggja forma. Það fylgir því meira frelsi, það er svona einfaldara að vera í óvígðri sambúð. Ég held að lögin eigi að endurspegla það að þarna sé ákveðinn munur. En þegar kemur að öðrum þáttum eins og tryggingum, á ekki að gera mun. Það er svolítið misjafnt hvar á að gera kröfur um sömu réttindi og sömu skyldur og hvar ekki. Það er þetta frelsi sem skiptir meginmáli. Um þetta kunna að vera skiptar skoðanir og þetta er í sjálfu sér spennandi umræða. En ég þakka hv. þm. og undirtektirnar og vona að nefndin sem fær þetta til meðferðar veiti málinu gott brautargengi. Þá held ég að það sé nú rétt, hæstv. forseti, að ég muni eftir því að leggja til að vísa málinu til hv. allshn. sem ég gleymdi í fyrri ræðu minni.