Virðisaukaskattur

Þriðjudaginn 06. febrúar 1996, kl. 16:02:26 (2753)

1996-02-06 16:02:26# 120. lþ. 84.11 fundur 272. mál: #A virðisaukaskattur# (trygging fyrir endurgreiðslu skatts) frv., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur


[16:02]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Virðulegi forseti. Á þskj. 507 hef ég leyft mér ásamt hv. þm. Ágústi Einarssyni að flytja frv. um breytingu á lögum um virðisaukaskatt. Frv. þetta var áður flutt á 118. löggjafarþingi en náði þá ekki fram að ganga. Frv. fjallar um að skattstjórum sé heimilt að krefjast trygginga vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts úr ríkissjóði. Eins og hv. þm. vita hafa á undanförnum mánuðum gengið dómar vegna sviksamlegrar háttsemi manna við að fá virðisaukaskatt ranglega greiddan úr ríkissjóði. Um er að ræða nokkur mál sem dómar hafa gengið í þar sem fjárhæðir svo mörgum tugum milljóna skiptir hafa verið sviknar út úr skattkerfinu. Það mál sem stærst er að umfangi og hæst hefur borið er svokallað ,,Vatnsberamál`` en í því eina máli voru 38 millj. sviknar út úr ríkissjóði.

Ég hef kynnt mér, virðulegi forseti, nokkra dóma sem hafa fallið varðandi svik á virðisaukaskatti og ekki síst Vatnsberamálið sem er stærsta málið varðandi innskattssvikin. Niðurstaða mín, eftir að hafa lesið þessa dóma, er að það er ótrúlegt hvernig hægt hefur verið að svíkja svona mikla fjármuni út úr ríkissjóði. Ég vil, með leyfi forseta, fá að vitna aðeins í dómsúrskurð varðandi þetta mál. Þar kemur fram varðandi Vatnsberamálið að ákærða voru gefnar að sök stórfelldar rangfærslur við virðisaukaskattsskil á árunum 1992, 1993 og 1994 með því að hafa útbúið fyrir hönd téðs hluthafa alls 111 tilhæfulausar virðisaukaskattsskýrslur. Þar var tilgreindur innskattur að meginhluta samkvæmt reikningum frá einkafyrirtæki ákærða sem kallast EBÓ-verktakar, án þess að nokkur raunveruleg viðskipti hefðu átt sér stað á milli fyrirtækja, enda var það fyrirtæki ekki með neina starfsemi. Það skilaði á greindu tímabili ýmist engum virðisaukaskattsskýrslum eða skýrslum þar sem virðisaukaskattsskyld velta var engin. Honum var einnig gefið að sök að hafa með vikulegum framvísunum á röngum skýrslum sem hafa þá verið 111 talsins, svikið úr ríkissjóði að minnsta kosti 38 millj. sem endurgreiddan virðisaukaskatt samkvæmt skýrslum sem nánar er svo greint frá í þessum dómi. Það er furðulegt þegar um er að ræða 111 tilhæfulausar virðisaukaskattsskýrslur að ekki hafi verið brugðist fyrr við í þessu máli. Það kemur fram í þessum dómi að dregið er í efa þegar farið er yfir niðurstöðu málsins að sá sem var kærður hafi í reynd verið með sjálfstæðan atvinnurekstur í nafni þessa einstaklingsfyrirtækis síns sem var EBÓ-verktakar. Og það er upplýst í málinu og staðfest af kærða að engar greiðslur á umræddum útgefnum reikningum þessa verktakafyrirtækis hafi farið fram á milli aðila þ.e. frá Vatnsberanum hf. og til EBÓ-verktaka. Svo segir í dómnum: ,,Margt bendir til að umræddir útgefnir reikningar EBÓ-verktaka og viðskipti sem þeir eiga að bera með sér séu tilbúningur einn og jafnvel gerðir í sviksamlegum tilgangi, þ.e. að svíkja fé úr ríkissjóði.``

Þetta er mjög athyglisvert mál að mínu viti. Það kemur fram í úrskurðinum sjálfum að þetta verktakafyrirtæki hafi verið einkafyrirtæki viðkomandi og hann hafi verið eini starfsmaður fyrirtækisins á föstum launum og reikningar fyrirtækisins á hendur Vatnsberanum hf. hafi verið samkvæmt verksamningi og hafi hann einn séð um vinnu samkvæmt honum. Hann var síðan sjálfur framkvæmdastjóri og eini stjórnarmaður Vatnsberans. Þetta er því allt hið furðulegasta mál og með ólíkindum að hægt hafi verið með 111 virðisaukaskattsskýrslum að svíkja 38 millj. út úr ríkissjóði.

Fleiri dómar hafa gengið varðandi svik á virðisaukaskatti og hafa þeir m.a. lotið að endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna innskatts af hráefnakaupum án þess að nokkurt hráefni hafi verið keypt.

Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að fara nákvæmar út í þessa dóma en ég held að þeir sýni ljóslega að það þurfi að skoða verulega þær leiðir sem menn hafa fundið til skattsvika gegnum virðisaukaskattskerfið. Það var nefnilega svo, virðulegi forseti, að einn meginkosturinn með upptöku virðisaukakatts í stað söluskatts var talinn felast í kerfisbreytingunni úr söluskatti í virðisaukaskatt því að þá væri verið að loka smugum til skattsvika. Reyndin hefur þó orðið sú að menn hafa fundið leiðir til skattsvika, eins og hér hefur komið fram og menn vita, ekki síst gegnum innskattinn. Þetta er vissulega ný tegund af skattsvikum og það er ljóst af þeim dómum sem gengið hafa og ég hef stuttlega vitnað í, að það er veruleg hætta á stórfelldum skattsvikum ef ekki er við brugðist.

Mér finnst, virðulegi forseti, að fjmrh. sem yfirmanni skattamála á Íslandi beri skylda til þess að skoða hvernig hægt sé að taka á þessu máli og loka fyrir þær smugur sem hægt er að nota til þess að fá ólöglega greiddar innskattsgreiðslur.

Uppbygging skattsins er, eins og menn þekkja, að innskatturinn getur alloft orðið hærri en útskatturinn og oft og tíðum hafa aðilar því fengið umtalsverðar fjárhæðir ranglega endurgreiddar úr ríkissjóði áður en í ljós hefur komið að um skattsvik er að ræða. Því er nauðsynlegt að sporna við tilhneigingu af þessu tagi og á því er tekið í frv. sem hér er tekið til umræðu. Ég er ekki að segja að sú leið sem stungið er upp á í frv. sé eina leiðin sem til greina komi til að loka þessari smugu en það er vissulega gerð tilraun til þess í frv. sem hér er til umræðu. Efni frv. er að skattstjórum sé heimilt að krefjast trygginga vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts úr ríkissjóði. Þannig er gert ráð fyrir að unnt verði að krefja aðila sem fá greiddar verulegar fjárhæðir úr ríkissjóði um tryggingu, t.d. bankaábyrgðir eða veðsetningar. Með þeim hætti ættu hagsmunir ríkissjóðs vera miklu betur tryggðir ef í ljós kæmi að forsendur endurgreiðslu virðisaukaskattsins ættu ekki rétt á sér. Hugmyndin er sú að þessu ákvæði mætti beita þegar innskattur er að jafnaði hærri en útskattur en í frv. er gert ráð fyrir að nánar verði kveðið á um í reglugerð hvernig að þessu skuli staðið.

Það er áætlað að um 10% framteljenda virðisaukaskatts fái endurgreiddan virðisaukaskatt þegar innskatturinn reynist hærri en útskattur, þannig að hér er um þó nokkurn fjölda virðisaukaskattgreiðenda að ræða og þó nokkuð háar fjárhæðir. Í þeim tilvikum sem innskattur reynist hærri en útskattur, er um að ræða fjárfestingar, útflutning eða breytingu á eignarhaldi.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í upphafi míns máls var þetta frv. til umræðu á 118. löggjafarþingi og fékk nokkra umfjöllun í hv. efh.- og viðskn. sem sendi málið til umsagnar. Nefndin fékk síðan umsagnir ýmissa aðila, m.a. skattrannsóknarstjóra ríkisins. Ég vil í lokin leyfa mér að vitna í umsögn skattrannsóknarstjóra ríkisins. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Það er reynsla embættis skattrannsóknarstjóra ríkisins að virðisaukaskatturinn opni nýja svikamöguleika. Þar er sérstaklega um að ræða innskattinn sem er þess eðlis að strangt aðhald þarf að vera með honum. Ný tegund skattsvika hefur litið dagsins ljós sem eru fjölbreytileg innskattssvik og hætta á misferli er umtalsverð. Í málum sem komið hafa til kasta embættisins hafa aðilar í nokkrum tilvikum fengið umtalsverðar fjárhæðir ranglega endurgreiddar áður en við rannsókn hefur komið í ljós að grundvöllur slíkrar endurgreiðslu var enginn. Má í þessu sambandi benda á dóm héraðsdóms Reykjanesumdæmis sem kveðinn var upp 31. desember 1993 þar sem fiskkaupandi gerði tilraun til þess að fá röskar 6 millj. endurgreiddar úr ríkissjóði án þess að nokkur fiskkaup hefðu átt sér stað. Þá má nefna fleiri dóma sem eru á sama vegu. Verður því að telja að full ástæða sé til að gæta mjög vel að innskattinum og þeirri misnotkun sem þar er möguleg.

Frumvarp það sem hér liggur fyrir gerir kleift að setja ákveðnar tryggingar ef á þarf að halda. Ekki er vafi á að ákvæði þetta mun draga úr skattsvikum af þessum toga en einkum gera ríkissjóði kleift að endurheimta oftekinn skatt.``

Skattrannsóknarstjórinn mælti þá, á 118. þingi, með samþykkt ákvæðisins sem var í frv. og er samhljóða ákvæðinu sem er í frv. sem hér er mælt fyrir. Eftir að skattrannsóknarstjóri lét þinginu í té þessa umsögn, sem var 14. nóvember 1994, hefur gengið dómur í Vatnsberamálinu sem er stærst að umfangi þeirra mála sem fjalla um innskattssvik. Það er því enn brýnna nú en kannski var á þinginu 1994 að þingið taki þetta frv. til mjög rækilegrar skoðunar og efnislegrar umfjöllunar og afgreiðslu.

Það er ósk mín og von, virðulegi forseti, að svo verði. Ég vil í lokin leyfa mér að óska eftir að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.