Virðisaukaskattur

Þriðjudaginn 06. febrúar 1996, kl. 16:16:44 (2755)

1996-02-06 16:16:44# 120. lþ. 84.11 fundur 272. mál: #A virðisaukaskattur# (trygging fyrir endurgreiðslu skatts) frv., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur


[16:16]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þær undirtektir sem fram komu við málið hjá síðasta ræðumanni. Síðasti ræðumaður tók undir efni frv. um að þetta mál yrði skoðað rækilega og fundnar yrðu leiðir til að koma í veg fyrir innskattssvik þó að hv. þm. tæki ekki endilega undir leiðina sem hér er nefnd. Ég vil upplýsa það --- ég held að þingmaðurinn hafi ekki verið kominn í salinn --- að ég sagði að þetta væri kannski ekki eina rétta leiðin sem fær er í stöðunni en það væri nauðsynlegt að hreyfa málinu og að þingið skoðaði ítarlega hvaða leið væri hægt að fara til að taka á því.

Það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að þingið getur ekki búið við það ef framkvæmdarvaldið, í þessu tilfelli hæstv. fjmrh., kemur ekki með inn í þingið hugmyndir sínar og tillögur um hvernig taka eigi á þessu máli. Það er mjög sæmt, virðulegi forseti, að hæstv. fjmrh. skuli ekki vera viðstaddur umræðuna svo að við hv. þingmenn mættum heyra hugmyndir hans um það hvernig hann vill taka á þessu máli. Það má vel vera, í ljósi þess að hæstv. ráðherra heiðrar okkur ekki með sinni nærveru, að það sé full ástæða til þess og ég mun skoða hvort það væri rétt að leggja fram formlega fyrirspurn til að komast að því hvað hæstv. ráðherra ætlar að gera í málinu ef ekki fást upplýsingar um það í nefndinni sem fjallar um þetta mál.