Aðgengi fatlaðra að umhverfisráðuneytinu

Miðvikudaginn 07. febrúar 1996, kl. 13:33:10 (2757)

1996-02-07 13:33:10# 120. lþ. 85.1 fundur 264. mál: #A aðgengi fatlaðra að umhverfisráðuneytinu# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur


[13:33]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Umhvrn. hefur yfirtekið málaflokkinn byggingar- og skipulagsmál. Nú er spurt: Hvað hyggst umhvrh. gera til að bæta aðgengi fatlaðra að ráðuneytinu?

Svo sem kunnugt er veittu Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra og Ný-ung, ungliðahreyfing Sjálfsbjargar, umhvrn. sérstaka ádrepu með orðunni Þrándur í Götu á árinu 1994. Þá lýsti þáv. umhvrh. því yfir að ráðuneytið yrði gert aðgengilegt öllum gestum. Í nýju frv. til skipulags- og byggingarlaga er lagt var fyrir Alþingi á 118. löggjafarþingi eru háleit markmið. Þar segir í 1. gr.: ,,Markmið laga þessara er: að þróun byggðar og landnotkunar á landinu öllu verði í samræmi við skipulagsáætlanir sem hafi efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna, heilbrigði þeirra og öryggi að leiðarljósi.``

Augljóst er af markmiðum þessum að ekki verður risið undir þeim nema umhvrh. geri umhvrn., ráðuneyti umhverfis- og skipulagsmála, fullkomlega aðgengilegt öllum sem þangað þurfa að leita. Hvað varðar stofnanir umhvrn., önnur ráðuneyti og ríkisstofnanir verður að gera kröfu til þess að allir opinberir vinnustaðir, þar á meðal ráðuneyti og ríkisstofnanir, verði gerð aðgengileg fötluðum. Um er að ræða stofnanir ætlaðar landsmönnum öllum. Ótækt er að stórum hópi fólks sé gert ókleift að sækja þangað þjónustu.

Í 32. gr. laga um málefni fatlaðra er kveðið á um að fatlaðir skuli eiga forgang að atvinnu hjá ríki og sveitarfélagi ef hæfni þeirra til starfsins er meiri eða jöfn hæfni annarra sem um starfið sækja. Heldur hljóma þessi orð innantóm þegar fötluðum einstaklingi er síðan í raun úthýst vegna þess að ráðuneyti eða viðkomandi ríkisstofnun eða önnur opinber stofnun er óaðgengileg fötluðum. Á alþjóðadegi fatlaðra, 3. des. 1995, sagði hæstv. umhvrh. að þá á næstu dögum yrði tekin ákvörðun um úrbætur í aðgengismálum að ráðuneytinu þannig ,,að málið yrði ekki ráðuneytinu til frekari vansa`` eins og hæstv. ráðherra sjálfur komst að orði.

Forveri núv. hæstv. umhvrh. sagði í júnímánuði 1994 að gerðar yrðu breytingar á inngangi Vonarstrætis 4. Í febrúar 1995 sagði sami hæstv. ráðherra að komnar væru á borðið teikningar, lyfta og fjármagn. Nú spyr ég hæstv. umhvrh. hvort búið sé að ljúka hönnunarvinnu svo nýta megi fyrirliggjandi fjármagn til framkvæmda. En sú spurning sem formlega var sett fram er þessi: Hvað hyggst ráðherra gera til að bæta aðgengi fatlaðra að ráðuneytinu?