Könnun á stöðu fatlaðra á vinnumarkaðinum

Miðvikudaginn 07. febrúar 1996, kl. 13:54:09 (2763)

1996-02-07 13:54:09# 120. lþ. 85.2 fundur 265. mál: #A könnun á stöðu fatlaðra á vinnumarkaðinum# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur


[13:54]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þær upplýsingar sem fram komu í máli hans. Það mætti auðvitað hafa langt mál um það með hvaða hætti eigi að stuðla að því að fatlaðir fái atvinnu. Í rauninni má segja að staðan í atvinnumálum fatlaðra sé talandi dæmi um það hvernig hægt er að blekkja með tölum og tölfræði. Samkvæmt þeim úttektum sem gerðar hafa verið eru ekki ýkja margir fatlaðir atvinnulausir. Þeir eru hins vegar skilgreindir út af vinnumarkaði undir heitinu öryrkjar, jafnvel þótt þeir búi yfir eftirsóknarverðum starfskröftum. Með því að grípa til ráðstafana á vinnumarkaði, t.d. þeirra sem varða aðgengismál, er hægt að skapa fötluðum vinnuskilyrði og veita þeim aðgang inn á vinnumarkaðinn þannig að samfélagið megi njóta starfskrafta þeirra. Að þessu þarf að vinna á markvissan hátt. Væntanlega með það fyrir augum ráðast menn í athuganir og kannanir eins og lög kveða á um. Ég vil hvetja ráðherra til að skipa hið fyrsta samstarfsnefnd frá samtökum fatlaðra, aðilum vinnumarkaðar og félmrn. til þess að starfa í þessum anda og gefa þannig vinnufúsu fólki möguleika á að leggja samfélaginu lið. Reyndar skildi ég það svo af máli hæstv. ráðherra að hann tæki vel í slíkar hugmyndir og því fagna ég.