Könnun á stöðu fatlaðra á vinnumarkaðinum

Miðvikudaginn 07. febrúar 1996, kl. 13:56:10 (2764)

1996-02-07 13:56:10# 120. lþ. 85.2 fundur 265. mál: #A könnun á stöðu fatlaðra á vinnumarkaðinum# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur


[13:56]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég tel meginmálið að reyna að skapa sem flestum fötluðum aðstöðu til þátttöku á almennum vinnumarkaði, hjálpa þeim út á almennan vinnumarkað og styðja þá til þess að stíga þar fyrstu skrefin. Það finnst mér vera meginatriðið. Það er ástæða til að velta fyrir sér leiðum þangað. Út af fyrir sig bjarga skýrslur ekki miklu en í þessum málaflokki þarf þó að hafa yfirsýn. Menn þurfa að vita hvað þeir eru að gera, ég tel sjálfsagt og mikilvægt að stuðla að því. En það sem ég vil fyrst og fremst leggja áherslu á er að reyna að koma sem allra flestum fötluðum út á vinnumarkaðinn bæði til að nýta starfskrafta þeirra sem eru miklir og góðir og jafnframt til þess að öðlast þá lífsfyllingu sem í því felst að geta tekið virkan þátt í þjóðlífinu.