Aðgengi opinberra bygginga

Miðvikudaginn 07. febrúar 1996, kl. 14:10:17 (2769)

1996-02-07 14:10:17# 120. lþ. 85.3 fundur 266. mál: #A aðgengi opinberra bygginga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur


[14:10]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég held að fyrsta atriðið sem við eigum að snúa okkur að sé að gæta þess þegar verið er að reisa nýjar byggingar að þær séu skikkanlega úr garði gerðar. Eldri byggingar í eigu sveitarfélaga þarf að endurbæta mjög. Það er hins vegar dýrt og fjárhag sumra sveitarfélaga er þannig háttað að það er ástæða til þess að hafa nokkrar áhyggjur og það eru nokkrar vöflur á mér að eggja þau til mikilla fjárfestinga. Í skriflegu svari sem ég gekk frá í gær við fyrirspurn frá hv. þm. Ögmundi Jónassyni og hv. þm. Kristni Gunnarssyni um skuldir sveitarfélaga kemur fram að heildarskuldir sveitarsjóða í árslok 1994 voru 34 milljarðar og heildarskuldir fyrirtækja sveitarfélaga, sem hafa sjálfstæðan fjárhag, voru nærri 20 milljarðar. Heildarskuldir sveitarsjóða og fyrirtækja þeirra voru því hvorki meira né minna en 54,5 milljarðar. Það eru því nokkrar vöflur á mér að setja fram harðar kröfur á sveitarfélög, a.m.k. þau sem skuldsett eru.

Auðvitað er sjálfsagt að vinna að endurbótum á byggingum á vegum ríkisins og það er ekki vansalaust að mikilvægustu opinberar byggingar eins og Alþingi og mörg af ráðuneytunum skulu vera þannig að þar komist ekki inn fólk sem á við mikla hreyfihömlun að stríða.