Aðgengi fatlaðra að Þjóðleikhúsinu

Miðvikudaginn 07. febrúar 1996, kl. 14:13:10 (2770)

1996-02-07 14:13:10# 120. lþ. 85.4 fundur 267. mál: #A aðgengi fatlaðra að Þjóðleikhúsinu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur


[14:13]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Nú er liðið á annan áratug síðan aðgengismál í Þjóðleikhúsinu, leikhúsi allra landsmanna, voru til umfjöllunar á Alþingi. Þá var lögð fram þáltill. um bætta aðstöðu hreyfihamlaðra í Þjóðleikhúsinu. Gerð var áætlun um nauðsynlegar breytingar og framkvæmd þeirra og á fjárlögum var í ein þrjú ár gert ráð fyrir sérstöku fjármagni til þessara framkvæmda.

Þegar viðamiklar breytingar voru gerðar á Þjóðleikhúsinu fyrir nokkrum árum var að nokkru leyti komið til móts við þær hugmyndir sem fyrir lágu. Meðal annars var komið fyrir salernum fyrir fatlaða í kjallara hússins og á annarri hæð. Hins vegar var ekki séð til þess að fólk í hjólastólum kæmist niður í kjallara eða upp á annarri hæð eins og ætla mætti að eðlilegt væri. Í húsinu er engin lyfta fyrir leikhúsgesti, engin aðstaða fyrir hjólastóla er í aðalsýningarsal hússins, fólk í hjólastól getur ekki komið á sýningar á Litla sviðinu eða á Smíðaverkstæðinu eða notið veitinga í veitingasal. Í ljósi þessa er þeirri fyrirspurn beint til hæstv. menntmrh. hvað hann hyggst gera til þess að bæta aðgengi fyrir fatlaða við Þjóðleikhúsið, leikhús allra landsmanna.