Aðgengi fatlaðra að Þjóðleikhúsinu

Miðvikudaginn 07. febrúar 1996, kl. 14:14:05 (2771)

1996-02-07 14:14:05# 120. lþ. 85.4 fundur 267. mál: #A aðgengi fatlaðra að Þjóðleikhúsinu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur


[14:14]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Í áætlunum um endurbætur á Þjóðleikhúsinu sem ráðist var í á árunum 1990--1991 var í fyrsta áfanga m.a. gert ráð fyrir nýrri fólkslyftu fyrir fatlaða áhorfendur. Hönnun á slíkri lyftu við austurhlið hússins liggur fyrir. Uppsetningu lyftunnar fylgja mjög kostnaðarsamar breytingar. Varð að ráði að fresta lyftuframkvæmdunum og miða við að í þær yrði ráðist samtímis frágangi á nýju loftræstikerfi í húsinu. Fé hefur ekki verið fyrir hendi til að halda framkvæmdum áfram og er áætluðum 1. áfanga því ekki að fullu lokið. Ekki verður á þessari stundu fullyrt hvenær að lyftuframkvæmdunum kemur né hvort þær verða endanlega í samræmi við þá hönnun sem nú liggur fyrir.

Þótt fyrirhuguð lyfta sé ekki komin í gagnið hefur aðgengi og aðstaða fatlaðra batnað mjög hin síðustu ár miðað við það sem áður var, einkum í aðalbyggingu Þjóðleikhússins. Starfsfólk leikhússins aðstoðar fólk í hjólastólum og aðra fatlaða sem koma að húsinu austanverðu en þar eru sérstök bílastæði fyrir fatlaða og þjónustubifreiðar. Hjólastólum er ekið inn í húsið eftir sérstökum brautum allt inn á aðalgólf salarins. Áhorfendum í hjólastólum er ætlaður staður á besta stað í sal og er hægt að koma fyrir allt að átta hjólastólum fyrir í einu. Fötluðum áhorfendum er gefinn kostur á veitingum á jarðhæðinni og salernisaðstaða er fyrir hendi. Þá skal þess og getið að áhorfandi í hjólastól greiðir ekki aðgangseyri í Þjóðleikhúsinu.